Örlög glóperunnar á Íslandi ráðast senn

Ljósaperur
Ljósaperur

Ekki er frágengið hvort glóperur verða teknar af markaði hér á landi en í fréttum í gær kom fram að frá og með 1. september nk. verður hætt að selja 100-watta glóperur innan Evrópusambandsins og aðrar slíkar perur með minni styrk eiga alveg að vera horfnar af markaði 2012. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hér á landi hvað gert verður í þessu efni.

Guðjón A. Guðjónsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu, segir þessar tegundir pera til skoðunar hér.  Þær séu innan ramma tilskipunarinnar í EES samningnum en verið sé að fara yfir það hvernig staðið verður að þessu hér á landi.

Þó að sölubann á glóperur sé innan tilskipunarinnar er unnt að sækja um aðlögun eða undanþágu frá henni, enda staðbundin raforkuframleiðsla hér á landi með þeim hætti að hún losar engar óæskilegar lofttegundir sem aftur á móti Evrópulöndin eru  mjög upptekin af.

Bent hefur verið á að glóperan hafi eiginleika sem engin önnur pera nálgist, það er litrófið og hlýleikinn og innihaldi mun umhverfisvænni efni, ekkert kvikasilfur, aðeins hreina málma og hreint gler.

Guðjón segir Evrópusambandið hafa svarað gagnrýninni um kvikasilfrið í sparperunum á þann veg að það verði leyst með endurvinnslu. Rökin um hlýrri og notarlegri birtu glóperunnar bíti heldur ekki á ESB sem horfi mjög  til kolefnislosunarinnar sem verður til við raforkuframleiðsluna.

Guðjón gerir ráð fyrir að mjög fljótlega muni fulltrúar iðnaðarráðuneytisins og umhverfisráðuneytis setjast yfir greinargerðina um ljósaperurnar sem er hluti tilskipunarinnar og taka ákvörðun um hvað gert verður hér. Það er ekki aðeins innan Evrópusambandsins sem glóperurnar verða bannaðar heldur er  sama upp á teningnum í Bandaríkjunum og Ástralíu. Guðjón segir því mega velta því fyrir sér að þegar svo stórir markaðir lokast hvort framleiðslunni á glóperum verði þá ekki sjálfhætt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert