Guðjón Arnar í sjávarútvegsráðuneytið

Jón Bjarnason og Guðjón Arnar Kristjánsson.
Jón Bjarnason og Guðjón Arnar Kristjánsson.

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hefur ráðið Guðjón Arnar Kristjánsson fv. alþingismann til sérstakra verkefna í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu.

Fram kemur á heimasíðu ráðuneytisins að Guðjón Arnar muni einkum sinna verkefnum sem snúi að undirbúningi brýnna breytinga á fiskveiðilöggjöfinni sem ráðherra hyggist leggja fram á haustþingi í samræmi við stjórnaryfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

„Guðjón Arnar Kristjánsson hefur yfirgripsmikla þekkingu á íslenskum sjávarútvegi og telur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Jón Bjarnason, sérstakan feng fyrir ráðuneytið að fá að njóta starfskrafta hans og mikillar reynslu," segir á ráðuneytisvefnum.

Guðjón Arnar er formaður Frjálslynda flokksins en flokkurinn kom ekki manni á Alþingi í þingkosningunum í apríl. Steingrímur J. Sigfússon, sem var sjávarútvegsráðherra í minnihlutastjórn Samfylkingar og VG fyrir kosningarnar, sagði í leiðtogaumræðum á Ríkissjónvarpinu eftir kosningarnar, að hann hefði hringt í Guðjón, þegar ljóst var að hann var fallinn af þingi,  og nefnt við hann að ef hann yrði eitthvað lengur í sjávarútvegsráðuneytinu væri viðbúið að hann hóaði í hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert