Fundarmanni líst illa á Össur

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á fundi Bændasamtakanna í dag.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á fundi Bændasamtakanna í dag. Heiðar Kristjánsson

Aðildarfélög Bændasamtaka Íslands efndu í dag til opins fundar með Jóni Bjarnasyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á Hótel Sögu um hagsmuni landbúnaðarins í væntanlegum ESB-viðræðum. Jón var meðal annars spurður hvað myndi gerast ef upp kæmi ágreiningur í ríkisstjórninni í miðjum viðræðum.

Ráðherrann svaraði því til að sér hefði skilist að taka mætti upp slík mál á alþingi ef til þess kæmi en reikna mætti með að í samræmi við venju yrði fyrst gengið frá þeim málum sem auðveldast væri að fást við. Hins vegar vildi hann í þessu sambandi minna á að þegar menn væru á annað borð ,,komnir upp í rússíbana er erfitt að stökkva af". Hann ítrekaði á fundinum andstöðu sína við inngöngu í ESB og sagði það eftir sem áður skoðun sína að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan sambandsins.

Hinn frummælandinn, Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, ítrekaði einnig andstöðu sína og samtakanna við inngöngu. ,,Fulltrúar finnskra bænda gáfu okkur eitt mikilvægt ráð: Tryggið ykkur aðstoð lögfræðinga," sagði Haraldur og benti á að í Brussel væru menn duglegir að flækja málin. Hann sagði einnig brýnt að tryggja að sjónarmið bænda kæmu skýrt fram í þeim skýrslum sem embættismenn gerðu og notaðar yrðu af samninganefnd Íslendinga.

 Haraldur sagði að hornsteinn íslensks landbúnaðar yrði sem fyrr að vera fjölskyldubúið. Hann nefndi nokkur atriði sem mynda ættu ,,Varnarlínu", skilyrði sem uppfylla yrði til að tryggja íslenskum landbúnaði áframhaldandi líf ef til aðildar kæmi. Eitt væri að hann yrði að njóta áfram tollverndar og annað að ekki kæmi til mála að skipta landinu upp í svæði sem nytu mismunandi kjara í sambandinu vegna aðstæðna.

Einn fundargesta sagði athyglisvert að fylgjast með erindi ráðherra sem tæki undir nær allt sem fram hefði komið í máli formanns samtakanna en sæti samt í ríkisstjórn sem hefði sótt um aðild. Hann benti um leið á að Jón Bjarnason hefði tekið fram að innflutningstollar myndu falla niður ef Ísland gengi í ESB. Annar sagðist hafa heyrt að þegar væri búið að semja með leynd um ýmis mál og vildi fá að vita hvort það væri rétt.

Enn annar fundarmaður sagði mikilvægt að Bændasamtökin gættu hagsmuna allar búgreina og samstaða tækist gagnvart ESB-sinnum. ,,Ég verð að segja að mig hryllir við því að forræðið í samningamálunum verði í höndum Össurar Skarphéðinssonar sem er alveg sama um landbúnaðinn." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert