Saka ráðherra um hótanir

Ólafur Garðarsson stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna sakar fjármálaráðherra um að hóta fólki í fjárhagserfiðleikum. Samtökin boða greiðsluverkfall frá og með fyrsta október. Ólafur segist sjálfur hafa misst aleiguna í kreppunni.

Steingrímur J. Sigfússon segir alvarlegt mál og ábyrgðarlaust að hvetja fólk til að grípa til óyndisúrræða. Það geti bæði leitt ófarnað yfir fólkið sjálft og þjóðfélagið.

Greiðsluverkfall Hagsmunasamtaka heimilanna stendur í fimmtán daga en einnig er fólk hvatt til að taka peninga sína út úr ríkisbönkunum.

Ólafur segir bankana sem starfi í skjóli ríkisins og ekki hafa sýnt fólki í greiðsluerfiðleikum neinn samningsvilja. Það þýði lítið að benda fólki þangað eins og ráðherrann geri. Það séu blekkingar. Þá séu þetta lítt dulbúnar hótanir um að fólk verði tekið í karphúsið af dómskerfinu ef það greiði ekki af stökkbreyttum höfuðstóli lána. Hann segir að líkja megi ástandinu núna við náttúruhamfarir. Þá komi fólk náunganum til hjálpar.

Ólafur segist sjálfur hættur að greiða af húsnæðisláni sem var í erlendri mynt. Hans fjárhagsstaða hafi fyrst orðið bág þegar Kaupþing hafi ráðist að henni með einhliða hækkun vaxta á íbúðaláni og árásum á gjaldmiðilinn.

Þegar fjölskyldan hafi keypt íbúð hafi hún átt um það bil helminginn. á móti myntkörfuláninu. Síðan hafi lánið stökkbreyst í meðförum bankans og fjárhagsstaða heimilisins sé nú orðin mjög slæm. Hann segist telja framtíð sinni ógnað vegna þessa og hann vilji ekki lengur borga peninga til banka sem hafi vegið að fjárhagslegri heilsu fjölskyldu hans.

 
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert