Djúpavogshreppur í vatnsútflutning

Frá Berufirði en þangað verður vatnið sótt.
Frá Berufirði en þangað verður vatnið sótt. Rax / Ragnar Axelsson

Djúpavogshreppur hyggst eignast þriðjungs eignarhlut í einkahlutafélaginu H2O WATN (Worldwide Aqua Transport Network). Meðeigendur eru Auðunn S. Ólafsson og Ólafur S. Ögmundsson. Uppi eru áform um útflutning á vegum fyrirtækisins á vatni með tankskipum sem kæmu til með að liggja við festar í Fossárvík í Berufirði, en vatnið yrði tekið úr Nykurhyl, sem er einungis 1,5 km frá væntanlegum legustað skipanna. Vesur Austurgluggans skýrir frá þessu.

Fram kemur í fréttinni að í  fundargerð sveitarstjórnar Djúpavogshrepps, frá 3. september sl., sé reiknað er með að skip allt að 80 þús. tonn myndu lesta vatnið og að lestun hvers farms tæki um 2 sólarhringa. Enn stendur á ákveðnum leyfum / samþykki hins opinbera, en unnið hefur verið að framgangi málsins m.a. í samráði við landeigendur í um það bil eitt ár.

 

Þá segir að tilgangur H2O WATN er að vinna og selja vatn til útflutnings til neyslu og til iðnaðar -og landbúnaðarnotkunar, vinna að markaðsmálum og sölu framleiðsluvara og annar skyldur atvinnurekstur, auk reksturs fasteigna.

 ,,Gangi áformin eftir munu þau hafa í för með sér gífurlega lyftistöng fyrir hafnarsjóð, sveitarsjóð, landeigendur, iðnaðarmenn og ýmsa þjónustuaðila, auk þess sem útflutningurinn myndi hafa í för með sér verulegar tekjur fyrir ríkissjóð. Sveitarstjórn bindur vonir við að þrátt fyrir miklar annir í ráðuneytum, sem málið varðar, takist að búa þannig um hnúta að hægt verði að ganga til samninga við væntanlega kaupendur fljótlega. Gert er ráð fyrir að iðnaðarvatnið yrði að stærstum hluta selt til ákveðinna landa við Miðjarðarhaf en fyrir liggur að þörf á slíku vatni fer mjög vaxandi í heiminum og hefur vatn m.a. verið nefnt Bláa gullið,“ segir í fundargerð sveitarstjórnar að sögn Austurgluggans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert