Hækkuð framfærsla LÍN

Árni Páll og Katrín kynntu úrræðin fyrir fjölmiðlum í hádeginu.
Árni Páll og Katrín kynntu úrræðin fyrir fjölmiðlum í hádeginu.

„Til þess að hækka megi framfærsluna verður að sýna sparnað á móti og við teljum að við náum honum með þessu móti," segir Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra um breytingar á Lánasjóði íslenskra námsmanna, sem er ætlað að hvetja fólk til náms. 

Aðgerðirnar eru samspil félagsmálaráðuneytis og menntamálaráðuneytis og snýr að heildarsýn þar sem menntun verður tæki til að efla félagsleg úrræði. Grunnframfærsla LÍN hækkar um 20% og hækkar hún í 120.000 á mánuði. Tekjuskerðingarhlutfall námslána eykst jafnframt úr 10% í 35%. Tekið verður upp 750.000 króna frítekjumark, sem verður fimmfalt fyrir þá sem eru að hefja nám og hafa verið á vinnumarkaði.

Þær lánsáætlanir sem gerðar hafa verið fyrir skólaárið 2009/2010 gilda samkvæmt áður útgefnum úthlutunarreglum. Námsmenn geta hinsvegar afturkallað þær umsóknir og sent inn nýja samkvæmt nýjum reglum.

Með hækkun grunnframfærslunnar er ætlunin að auðvelda fólki sem hefur átt erfitt með að fara í nám að gera svo.  Dregið verður úr möguleikum á að sækja einingabært háskólanám samhliða töku atvinnuleysisbóta og er atvinnuleysisskrá nú að fullu samkeyrð við nemendaskrár háskólanna.

Ekki á að verða útgjaldaaukning hjá ríkissjóði vegna þessa þó aðgerðirnar muni kosta um einn milljarð. Aðrar sparnaðaraðgerðir miðast m.a. við endurskoðun á reglum um skólagjaldalán. Þá er gert ráð fyrir því að réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta á sumrin verði afnuminn en námsmenn sem hafa verið atvinnulausir á sumrin hafa átt rétt á slíkum bótum.

Gert er ráð fyrir því að framfærsla hækki eða standi í stað hjá miklum meirihluta námsmanna eða allt að 80%. Tillögur á breytingum komi sér best fyrir þann hóp námsmanna sem hefur minnstar tekjur. Sá sparnaður sem m.a. er gert ráð fyrir er að skólagjaldalán verði endurskoðuð í úthlutunarreglum fyrir næsta skólaár.

 „Það hefur verið vilji fólks að fara í nám en ýmsir erfiðleikar orðið í veginum. Mikilvægt að fólk bæti við sig í menntun og það eflir grunn að efnahagslegri endurreisn,“ segir Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra. En með þessum breytingum minnkar bilið á milli atvinnuleysisbóta og námslána en þrengja á rétt fólks til að vera í lánshæfu námi á bótum.

Árni Páll segir að unnið sé að úrræðum fyrir atvinnulausa til að komast í nám eða atvinnu og að engan tíma megi missa. „Við höfum sérstakar áhyggjur af þeim hópi sem aðeins hefur grunnskólamenntun en sá hópur er um 60% atvinnulausra,“ segir Árni Páll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert