Launafólk stýri sínum sjóðum

Frá ársfundi ASÍ í fyrra. Það kemur væntanlega í hlut …
Frá ársfundi ASÍ í fyrra. Það kemur væntanlega í hlut þingfulltrúa á ársfudni ASÍ sem fram fer dagana 22. og 23. október næstkomandi, að taka afstöðu til setu fulltrúa atvinnurekenda í stjórnum lífeyrissjóða innan ASÍ.

„Þessi tillaga gengur út á að stórauka lýðræðið þannig að allir sjóðsfélagar, bæði greiðendur og lífeyrisþegar, hafi möguleika á því að bjóða sig fram til stjórnarsetu í lífeyrissjóðum innan ASÍ,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Félagið hyggst leggja tillögu fyrir ársfund ASÍ sem miðar að því að launafólk taki yfir stjórnun lífeyrissjóða innan ASÍ og að stjórnarmenn verði kosnir beinni kosningu. Drög að tillögu liggja nú fyrir og verða drögin rædd í stjórn og trúnaðarráði Verkalýðsfélags Akraness á morgun.

40 ára gamall samningur

Nú eru liðin 40 ár frá því að ASÍ gekk fyrst frá samningi um lífeyrismál við Vinnuveitendasamband Íslands. Í þeim samningi er kveðið á um að verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur skipti með sér sætum í stjórnum lífeyrissjóðanna að jöfnu. Annar samningur var svo gerður milli ASÍ og Vinnuveitendasambandsins, nú Samtaka atvinnulífsins, þann 12. desember 1995. Í þeim samningi er sama ákvæði um skiptingu stjórnarsæta í lífeyrissjóðum.

Í þeim tillögudrögum sem nú liggja fyrir er lagt til að ársfundur ASÍ samþykki að miðstjórn ASÍ hefji strax vinnu við endurskoðun á fyrrgreindum samningi og er vitnað í endurskoðunarákvæði þar um. Endurskoðunin miði að því að tryggja að launafólk yfirtaki stjórnun lífeyrissjóða innan ASÍ. JAfnframt er lagt til að ársfundur ASÍ samþykki að unnið verði að breytingum á reglugerðum sjóðanna, þannig að sjóðsfélagar kjósi stjórnarmenn beinni kosningu.

„Ársfundur ASÍ er akkúrat rétti vettvangurinn til þess að taka á því hvort atvinnurekendur eiga að vera inni í stjórnum lífeyrissjóðanna eða ekki. Það er ekkert í kjarasamningum sem kveður á um skipan stjórna lífeyrissjóða eins og atvinnurekendur hafa verið að ýja að. Þetta liggur í þessum 40 ára gamla samningi og það er því ársfundur ASÍ sem getur og á að taka ákvörðun um breytingar sem þessar,“ segir Vilhjálmur Birgisson.

Engin sátt um setu atvinnurekenda í stjórnum

í greinargerð með tillögudrögunum sem rædd verða á morgun, segir að öllum sé ljóst að traust og trúverðugleiki lífeyrissjóðanna hafi beðið gífurlegan hnekki á undanförnum misserum. Þetta traust verði verkalýðshreyfingin að byggja upp aftur. Einn liður í þeirri uppbyggingu sé að atvinnurekendur víki úr stjórnum lífeyrissjóðanna, enda ríki ekki mikil sátt meðal sjóðsfélaga um stjórnarsetu atvinnurekenda í lífeyrissjóðunum.

Nokkur stéttarfélög hafa að undanförnu ályktað um mikilvægi þess að sjóðsfélagar einir sjái um stjórnun sjóðanna enda hagsmunir þeirra afar ríkir um hvernig fjárfestingarstefna er ákveðin fyrir lífeyrissjóðina.

Í greinargerð með tillögudrögunum segir ennfremur að engin haldbær rök séu fyrir því að atvinnurekendur sitji í stjórnum sjóðanna og taki ákvarðanir um fjárfestingarleiðir, þegar fyrir liggi að krosseignatengsl og hagsmunaárekstrar fulltrúa atvinnurekenda í sjóðunum geti klárlega skarast á við hagsmuni sjóðsfélaga. Augljós hætta sé á að hagsmunum sjóðsfélaga sé vikið til hliðar.

Atvinnurekendur lúti sömu lögmálum og aðrir sjóðsfélagar

„Við erum ekki að leggja til að verkalýðshreyfingin hirði öll stjórnarsætin í lífeyrissjóðunum. Það er ekki tilgangur tillögunnar heldur að stórauka lýðræðið þannig að allir sjóðsfélagar, bæði greiðendur og lífeyrisþegar, hafi möguleika á því að bjóða sig fram til stjórnarsetu. Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, getur því líkt og aðrir sjóðsfélagar í viðkomandi lífeyrissjóði, boðið sig fram til stjórnarsetu. Svo kemur í ljós hvort hann nær kosningu. Það er útfærsluatriði hvernig kosningu yrði háttað, hvort það yrði í allsherjaratkvæðagreiðslu meðal sjóðsfélaga eða á ársfundi viðkomandi lífeyrissjóðs,“ segir formaður VLFA.

Stjórn og trúnaðarráð VLFA ræðir drögin og á morgun. Í kjölfarið þarf að senda miðstjórn ASÍ tillöguna til meðferðar en miðstjórn gefur sína umsögn og leggur tillöguna fyrir ársfund ASÍ sem haldinn verður dagana 22. og 23. október.

„Það yrði saga til þarnæsta bæjar ef ef þessi tillaga fengi ekki hljómgrunn. Ég skora á alla launþega að fylgjast vel með hver afdrif tillögunnar verða, bæði hjá miðstjórn ASÍ og ekki síður á ársfundi ASÍ. Ef að verkalýðshreyfingin vill ekki að sjóðsfélagarnir sjálfir, eigendur sjóðanna, stjórni þeim og að lýðræði við val á stjórnarmönnum verði stóraukið þannig að stjórnarmenn verði kosnir beinni kosningu, þá er það grafalvarlegt mál fyrir verkalýðshreyfinguna. Það verður mér óskiljanlegt ef þessi tillaga fær ekki fullan stuðning,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert