Það er kominn september

Steingrímur J. Sigfússon  fjármálaráðherra telur líklegt að endanlegur frágangur ríkisábyrgðar vegna Icesave komi aftur til kasta Alþingis. Málið hefur verið kynnt fyrir þingnefndum og forystumönnum flokkanna en að öðru leyti hvílir leynd yfir viðbrögðum Breta og Hollendinga.

Steingrímur segir að það verði að koma málinu í höfn svo hægt sé að snúa sér að öðrum hlutum. Þarna sé um að ræða milliríkjadeilu sem þurfi að leysa. Hann segir að þetta séu óformlegar  hugmyndir Breta og Hollendinga og ef þær fái ekki hljómgrunn hverfi þær af borðinu. Málið sé því á mjög viðkvæmu stigi og framkvæmdavaldið hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort hægt sé að vinna á grunni þessara hugmynda.    

Steingrímur segir að stjórnarandstaðan hefði því átt að sofa á málinu áður en hún fullyrti að fyrirvörunum hefði verið hafnað. 

Steingrímur vill engu spá ef málið dregst á langinn. Hann sagðist einungis vilja minna á að það væri kominn september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert