Fréttaskýring: Afla upplýsinga um Grænlandsgöngur

Íslenskir vísindamenn hafa fylgst með vexti og viðgangi þorsksins við A-Grænland í samvinnu við grænlenska kollega sína. Í leiðangri Hafrannsóknastofnunar í vor voru um 3.600 þorskar merktir og standa vonir til að endurheimtur merkja muni varpa ljósi á göngur þorsksins.

Tengsl þorsks við Grænland og Ísland eru ótvíræð þegar skoðuð eru sögulegt gögn. Til dæmis eru til merkingagögn frá því um 1930 úr þorski sem merktur var við Vestur-Grænland. Um 75% merkja sem endurheimtust voru úr þorski sem veiddist við Ísland. Göngur þorsks milli Íslands og Grænlands eru taldar ganga þannig fyrir sig að þorskurinn klekst út á Íslandsmiðum. Seiðin rekur síðan yfir til Grænlands. Þar elst þorskurinn upp en snýr aftur heim þegar hann er kominn í hrygningarástand.

„Frá því um 1970 hefur verið talið að afskaplega lítið væri um hrygningu þorsks við Grænland, hvað þá við A-Grænland, og því þóttu fréttir um hrygningu á þessum slóðum talsverð tíðindi,“ segir Einar Hjörleifsson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnun, sem stjórnar þessu verkefni. „Þarna eru þekktar veiðislóðir frá því í gamla daga og við vildum meðal annars skoða aldurssamsetningu á þessum fiski. Í leiðangrinum í byrjun maí kom í ljós að þarna var allstór þorskur í bullandi hrygningu.“

Einar vill ekki fullyrða að þessi hrygningarfiskur við Grænland sé ættaður frá Íslandi. Talsvert hefur veiðst úr 2003-árganginum við Grænland og eru kenningar um að sá fiskur sé úr hrygningu við Ísland. Einar segir að þessi árgangur við Grænland slagi upp í að vera stór miðað við árin á undan, en sé ekki stór árgangur í sögulegu samhengi.

Einar segir að tvennt þurfi að koma til svo íslenskur þorskur nái að vaxa upp við Grænland. Í fyrsta lagi þurfi umhverfisskilyrði við Grænland að vera til staðar, þ.e. að þorskurinn hafi eitthvað að éta og geti þrifist. Þau skilyrði virðast vera að skapast með auknu hitastigi sjávar síðustu tíu árin. Þá sé spurning hvort stofninn hér við land sé nógu stór til að framleiða inn í þetta umhverfi, en stór hrygningarstofn við Ísland auki líkur á reki seiða til Grænlands í umtalsverðu magni.

Stjórnun veiðanna mikilvæg

Upp úr 1960 var aflinn við Grænland, þó einkum við Vestur-Grænland, ár eftir ár um og yfir 400 þúsund tonn og sum árin var hann meiri en við Ísland. „Það getur skipt okkur gríðarlega miklu máli þegar fer að verða lífvænlegt aftur fyrir þorsk við Grænland,“ segir Einar. Einnig skipti það Íslendinga miklu máli hvernig staðið verður að stjórnun veiðanna Grænlandsmegin. Skynsamleg veiði við Grænland auki líkur á sjálfbærni stofnsins við Grænland og ennfremur að umtalsvert magn af fiski skili sér aftur á Íslandsmið.

Í leiðangrinum í vor fannst talsvert af hrygningarýsu. Einar segir það sérstakt, því ekki sé mikið af ýsu við A-Grænland. Eins og með þorskinn hafi verið kenningar um rek ýsuseiða við ákveðin straumskilyrði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert