Davíð og Haraldur ritstjórar

Óskar Magnússon gerir grein fyrir breytingum á Morgunblaðinu á starfsmannafundi …
Óskar Magnússon gerir grein fyrir breytingum á Morgunblaðinu á starfsmannafundi í dag. mbl.is/Jón Pétur

Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, tilkynnti á starfsmannafundi hjá Árvakri nú síðdegis að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri, og Haraldur Johannessen, ritstjóri Viðskiptablaðsins, hefðu verið ráðnir ritstjórar Morgunblaðsins.

Einnig kom fram hjá Óskari, að 30 starfsmönnum fyrirtækisins hefði verið sagt upp í dag.  Að auki renni nokkrir tímabundnir ráðningarsamningar út fljótlega og verði þeir ekki endurnýjaðir. Samtals fækki því um tæplega 40 starfsmenn hjá Árvakri. Þessi fækkun nær til allra deilda blaðsins en flestir hverfa af ritstjórninni eða 19 af 104 sem þar hafa starfað að undanförnu.  Margir þeirra, sem sagt var upp í dag, voru starfsmenn sem höfðu margra áratuga starfsaldur.

Gert er ráð fyrir að þeir Davíð og Haraldur mæti til starfa á morgun. Óskar sagði að eigendur blaðsins hefðu átt þann kost að reyna að halda sjó og þrauka á meðan ástandið í þjóðfélaginu sé eins og það er. Ómögulegt væri að segja hvernig það hefði tekist en ákvörðun um tvo ritstjóra fæli í sér aðra aðferðafræði. Þess verði nú freistað að fá byr í seglin og sigla gegnum brimgarðinn. Í þeirri siglingu væru þeir Davíð og Haraldur afar hæfir, hvor á sinn hátt. 

Óskar sagði, að menn vissu vel að fjölmiðlar Árvakurs nytu óskoraðs trausts þjóðarinnar og því trausti ætluðu þeir ekki að bregðast. „Við munum áfram flytja óhlutdrægar, heiðarlegar og sanngjarnar fréttir af öllu sem máli skiptir, eigendum Árvakurs jafnt sem öðrum. Í þeim efnum mun ekkert breytast," sagði Óskar. Hann sagði á fundinum að  ekki væri gert ráð fyrir breytingum á fréttastjórn Morgunblaðsins.

Fram kom hjá Óskari, að þeim aðgerðum, sem nú hafi verið gripið til, sé ætlað að koma rekstri Árvakurs í jafnvægi en erfiðleikar hefðu verið í rekstri félagsins undanfarin ár. Framundan væri umtalsverð barátta þar sem Árvakur muni hvergi gefa eftir. Á næstunni verði meðal annars gerð sú breyting að sunnudagsblaði Morgunblaðsins verði dreift á laugardagsmorgni með laugardagsblaðinu.

Óskar sagði að sunnudagsblaðið verði áfram sjálfstætt og efnismikið blað með ferskum og fjölbreyttum efnistökum. Þá hefði einnig verið greint frá samstarfi við Skjá 1 um fréttaútsendingar en með því fengist betri nýting á því efni sem unnið er á ritstjórninni án þess að stofnað sé til aukins kostnaðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert