Tæplega 7000 vinnuslys í fyrra

Frá vinnu við Kárahnjúkavirkjun. Rúmlega 1.600 vinnuslys voru skráð þar …
Frá vinnu við Kárahnjúkavirkjun. Rúmlega 1.600 vinnuslys voru skráð þar í Slysaskrá meðan á framkvæmdum stóð. mbl.is

Á árinu 2008 urðu 6.997 vinnuslys samkvæmt slysaskrá Íslands. Þetta eru um 4% af vinnuafli á árinu. Alls slösuðust 1.758 einstaklingar í þessum vinnuslysum þannig að um tilkynningarskyld vinnuslys er að ræða. Tilkynningarskyld vinnuslys eru öll alvarleg slys og slys sem valda fjarvist sem nemur meira en degi til viðbótar slysadegi. Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins segir að leggja þurfi ríkari áherslu á vinnuvernd og kerfisbundið áhættumat og forvarnir á öllum stigum.

Slysaskrá Íslands er miðlægur gagnabanki sem inniheldur upplýsingar um slys með meiðslum og upplýsingar um eignatjón í umferðaróhöppum. Tilraunaskráning hófst í Slysaskrá Íslands 1. október 2001. Formleg skráning hófst hins vegar 1. apríl 2002 og frá og með þeim tíma hafa tölur verið gefnar út. Í fyrra skráðu tæplega tuttugu aðilar slys í skrána, Vinnueftirlitið, embætti Ríkislögreglustjóra, tryggingafélag og heilbrigðisstofnanir.

Brýnt að setja vinnuvernd hærra á stall

Yfirlæknir Vinnueftirlitsins ritar pistil um vinnuslys og forvarnir á vef stofnunarinnar. Hann segir m.a. að markmið vinnu sé vellíðan og velmegun, sjálfum sér, sínum og samfélagi til hagsbótar. Grundvallarmarkmið vinnuverndar sé að tryggja að vinnuumhverfið, eðli vinnunnar og vinnulag sé með þeim hætti að heilsa starfsmannsins verði ekki fyrir tjóni heldur skáni. Nú þegar kreppi að hjá fyrirtækjum og heimilum, ríki og sveitarfélögum sé brýnt að setja vinnuvernd hærra á stall þannig að tjón vegna lélegs vinnuumhverfis verði sem minnst.

Kristinn segir að tölur um vinnuslys í fyrra gefi vísbendingu um tjón, bæði fjárhagslegt og tjón sem ekki verði metið til fjár, sem megi fyrirbyggja.

„Hvert tilfelli er hins vegar ekki talið í fjölmiðlum þar sem við erum orðin samdauna þessari staðreynd. Það er hins vegar ljóst að með markvissum aðgerðum má ná betri árangri. Val á verkefnum til verðmætasköpunar, vinnuaðferðir, vinnuumhverfi, menntun, reynsla og fleira hefur áhrif á hvort og hvernig við náum þessum grunnmarkmiðum vinnuverndar – betri heilsa vinnandi fólks,“ segir kristinn Tómasson.

Hann segir að í þessu samhengi megi líta til hinna miklu framkvæmda á Austurlandi á umliðnum árum og tilkynntra vinnuslysa. Á Fljótsdalshéraði slösuðust frá 2003 til 25.8.2009, 1.594 karlar og 61 kona. Í Fjarðabyggð á sama tíma slösuðust 119 karlar og 24 konur. Vinnuslys í tengslum við framkvæmdirnar fyrir austan eru með öðrum orðum hlutfallslega mörg.

„Þessi “vinnuslysaskuldabyrði” skýrist án efa að hluta af hættulegri verkefnum. Í framtíðinni þarf því að leggja ríkari áherslu á að verkefni sem valin eru til verðmætasköpunar séu til þess fallin að uppfylla kröfu vinnuverndar um að þau efli heilsu og velmegun starfsmannsins. Þurfi menn að sinna hættulegum verkefnum þá þarf að leggja ríkari áherslu á vinnuvernd og kerfisbundið áhættumat og forvarnir á öllum stigum allt frá fyrsta skrefi í undirbúningi til þess að daglegur rekstur sé í blóma,“ segir Kristinn Tómasson, yfirlæknir Vinnueftirlitsins.

Vefur Vinnueftirlitsins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert