Þrjú bítast á um einkasjúkrahús

Gunnar Ármannsson, forsvarsmaður PrimaCare.
Gunnar Ármannsson, forsvarsmaður PrimaCare.

Sveitarfélögin Mosfellsbær, Álftanes og Garður bítast nú um að fá reist í bæjarlandi sínu einkasjúkrahús á vegum fyrirtækisins PrimaCare. Kópavogsbær og Reykjavík voru áður inni í myndinni en nú beina forsvarsmenn PrimaCare sjónum sínum fyrst og fremst að ofangreindu sveitarfélögunum þremur. Nálægð við náttúruna og fallegt umhverfi er það sem fyrirtækið leitar helst eftir.

Og vissulega vantar ekkert upp á náttúrufegurð í Garði og á Álftanesi, þar sem nálægð við hafið dregur að. Ekki er síður fagurt um að litast í Mosfellsbæ þar sem sveitastemmning setur svip sinn á bæjarlífið. Eftir nákvæmlega þessu er PrimaCare að falast fyrir sína sjúklinga. Mun það skýrast á næstu vikum hvaða sveitarfélag hreppir hnossið.

Eftir miklu er að slægjast því talið er að um 600-1.000 framtíðarstörf muni skapast fyrir utan fjölda starfa sem verða til meðan á byggingu sjúkrahússins og hótelsins stendur.

Sjúkrahúsið, sem er eingöngu ætlað útlendingum, verður með 120 herbergi og getur sinnt milli 4-6.000 sjúklingum á ári. Tvær tegundir aðgerða verða framkvæmdar á sjúkrahúsinu: hnjáliða- og mjaðmaskiptaaðgerðir. Þá er gert ráð fyrir að sjúklingunum fylgi fjölskyldumeðlimir svo hótel verður einnig byggt á staðnum.

Finnur Snorrason, bæklunarlæknir í Noregi, er þegar starfandi hjá PrimaCare en auk þess er verið að ræða við aðra lækna, bæði íslenska og norska. Þá eru einnig í gangi viðræður við bæklunarlækna í Orkuhúsinu um samstarf.

Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri PrimaCare, segir fyrirtækið ekki þurfa samþykki íslenskra heilbrigðisyfirvalda fyrir starfsemi sinni. „Við þurfum að fullnægja öllum gæðastöðlum og slíkt eftirlit er á könnu landlæknis,“ segir Gunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert