Undrast lokun Austurbæjarbíós

Austurbæjarbíó
Austurbæjarbíó mbl.is/Þorkell

Hópur ungs fólks, sem haft hefur aðstöðu til ýmiskonar liststarfsemi í Austurbæjarbíó, segir óskiljanlega þá ákvörðun borgaryfirvalda að loka húsinu, sama dag og blásið er til sérstaks forvarnardags í grunnskólum borgarinnar. Skorað er á borgarstjóra að koma í dag og kynna sér starfsemi í húsinu. 

Í tilkynningu frá hópnum segir að í sumar hafi ungt fólk unnið í sjálfboðavinnu við að gera aðstöðuna í Austurbæjarbíói nothæfa fyrir gróskumikla starfssemi. „Á annað hundrað ungmenni á aldrinum 16-25 ára hafa komið að starfinu og notað aðstöðuna sem sköpuð hefur verið. Mismunandi listform hafa notið sín í húsinu. Haldnar hafa verið myndlistarsýningar, danssýningar, gjörningar, innsetningar og tónleikar af ýmsu tagi. Þannig hefur aðstaðan í húsinu gefið skapandi ungu fólki færi á að þroskast og koma list sinni á framfæri.“

Þar segir einnig:

„Hópurinn sem í húsinu starfar er mjög fjölbreyttur, mörg erum við í framhaldskóla en þó nokkur hópur er bæði án atvinnu og skólavistar. Starfsemin hefur verið öllum opin og vel tekið á móti öllum sem sýna því áhuga að koma að starfsemi í húsinu enda er fjölbreytni og margbreytileiki lykillinn að öflugu skapandi starfi.

Sú ákvörðun borgaryfirvalda að loka þessari góðu og uppbyggilegu starfsemi sama dag og blásið er til sérstaks forvarnardags í grunnskólum borgarinnar er óskiljanleg.

Ungu fólki sem lagt hefur mikið á sig við endurbætur á húsinu og hafa þar nú aðstöðu hefur verið gert að rýma Austurbæjarbíó með tveggja daga fyrirvara og án þess að önnur aðstaða komi til. Svo virðist sem loka eigi húsinu til að láta það standa autt.

Fram hefur komið að kostnaðurinn við verkefnið er lítill. Borgin hefur lagt til fjármagn til viðgerða á húsinu, einkum efniskostnað og samstarfsaðilar borgarinnar greitt launakostnað tveggja starfsmanna sem unnið hafa við verkefnið. Eigendur hafa lánað húsnæðið án þess að leiga sé greidd fyrir það og samningur um það gildir til áramóta. Einnig er ljóst að borgin sparar verulega fjármuni á að hafa húsið opið og aðgang að sal Austurbæjarbíós, þá þarf ekki að leigja aðra sali undir tónleikahald og aðrar uppákomur t.d. á vegum Hins Hússins. Það að hafa starfsaðstöðu fyrir ungt fólk í húsinu sem tilbúnir eru að leggja á sig sjálfboðavinnu við þrif og að gera klárt fyrir sýningar og tónleika er því í raun mikill sparnaður fyrir borgina. Því skorum við á borgarstjóra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að koma til okkar í Austurbæjarbíó "hús unga fólksins" og kynna sér það uppbyggilega starf sem hér er unnið áður en hún lætur loka húsinu.“

Hópurinn segist verða í dag í húsinu, tilbúinn að taka á móti borgarstjóra.

„Látum 30. september verða daginn sem Austurbæjarbíói húsi unga fólksins var bjargað, í því felast ómetanleg menningarverðmæti,“ segir í yfirlýsingu hópsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert