Vonast brátt eftir Icesave-lausn

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að ef viðunandi lausn náist í Icesave-deilunni á næstu dögum, sem hægt sé að leggja fyrir Alþingi, muni Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn taka fyrir endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, bar undir Jóhönnu þau ummæli Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, í útvarpsviðtali í vikunni, að fram hefði komið á fundi með forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að ein meginástæða þess að sjóðurinn tæki ekki tekið upp endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands væri sú að sjóðurinn óttaðist að Evrópusambandsríkin myndu fella tillögu um endurskoðun áætlunarinnar.

Jóhanna sagði, að það hefði komið fram að menn tengdu saman Icesave og áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Það er óþolandi að það sé gert," sagði Jóhanna. Hún sagði að lán frá Norðurlöndum væru alfarið tengd því að endurskoðun fáist á áætlun AGS.

Jóhanna sagði, að sú afstaða Breta og Hollendinga hefði komið fram, að áætlun AGS yrði ekki afgreidd fyrr en Icesave-deilan leysist. Varðandi afstöðu annarra þjóða sagðist Jóhanna ekki hafa upplifað hana með þessum hætti sem Bjarni lýsti og hefði eftir seðlabankastjóra.

„En ég vona nú að málin fari að skýrast og tel að ef við fáum niðurstöðu í þessi mál á næstu dögum, sem við teljum að við getum lagt fyrir Alþingi, þá er von mín sú að við getum fengið endurskoðun hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum jafnvel þótt þingið sé ekki búið að afgreiða málið," sagði Jóhanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka