Hörð gagnrýni á biskupinn

Séra Gunnar Björnsson ræddi mál sitt á borgarafundi á Selfossi …
Séra Gunnar Björnsson ræddi mál sitt á borgarafundi á Selfossi í kvöld.

Séra Gunnar Björnsson sagði á borgarafundi á Selfossi að biskup Íslands hefði sent sér bréf eftir að Hæstiréttur kvað upp sýknudóm í máli hans. Hann hefði síðar í samtali við sig lofað sér því að hann ætti að taka við embættinu 1. júní. Nokkuð hörð gagnrýni hefur komið fram á biskup Íslands á fundinum.

Séra Gunnar sagði að með yfirlýsingum formanns sóknarnefndar Selfosskirkju í fjölmiðlum hefði sóknarnefndin farið langt út fyrir valdsvið sitt. Hún hefði í reynd tekið sér biskupsvald.

Hann sagði að lögmaður sinn hefði sagt að það sérstaka við þetta mál væri að það vantaði glæpinn. Hann hefði líka verið undrandi á því að saksóknari skyldi áfrýja málinu til Hæstaréttar.

Séra Gunnar sagði að eftir að Hæstiréttur hefði kveðið upp sýknudóm hefði Karl Sigurbjörnsson biskup sent sér bréf þar sem kæmi fram að hann ætti að taka við embætti sóknarprests á Selfossi 1. maí. Biskup hefði síðar hringt í sig og spurt hvort hann væri tilbúinn til að samþykkja að fresta því til 1. júní.

„Ég spurði hvort ég gæti treyst því að ég tæki við starfi 1. júní. Ég man að hann svaraði: „Já, þú getur treyst því.""

 Séra Gunnar sagðist hafa talið að með dómi Hæstaréttar væri málinu lokið. „Með lögum skal land byggja sögðu þeir gömlu Íslendingar og óvíst hvar lendir ef ekki er farið eftir niðurstöðu dómstóla. Það kann ekki góðri lukku að stríða að hafa tvenn lög í landinu. Þjóðkirkjan vill þjóna íslensku mannfélagi og þá fer ekki vel á því að hún ætli sér að búa við önnur lög en samfélagið sem hún þjónar."

Árni Johnsen alþingismaður lýsti því yfir á fundinum að hann myndi taka mál séra Gunnars upp á Alþingi. Hann gagnrýndi biskup Íslands harðlega á fundinum og sagði að svo gæti farið að biskup yrði dreginn fyrir dóm fyrir lögbrot.

Gagnrýni kom einnig fram á sóknarnefndina og kallað var eftir því að sóknarnefndin boðaði fund þar sem fólki gæfist kostur á að ræða málefni sóknarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert