Fær bætur vegna sundlaugarslyss

Laugardalslaug.
Laugardalslaug.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt Vátryggingafélag Íslands til að greiða karlmanni rúmar 33 milljónir í bætur vegna slyss, sem maðurinn varð fyrir í sundlauginni í Laugardal fyrir tveimur árum en hann stakk sér í grunnu laugina og slasaðist alvarlega.

Maðurinn, sem er pólskur, var 22 ára þegar þetta gerðist. Hann hafði unnið hér á landi í átta mánuði en var hvorki læs á ensku né íslensku. Hann hálsbrotnaði þegar hann rak höfuðið í botn laugarinnar og er lamaður. Er varanleg örorka hans metin 100%.

Maðurinn krafðist rúmlega 93 milljóna króna í bætur og byggði bótakröfuna m.a. á því  að merkingar á laugarbökkum hafi verið ófullnægjandi og óforsvaranlegar. Þannig hafi engar greinilegar merkingar eða skilti gefið til kynna að dýfingar væru þar óheimilar og/eða að sá endi laugarinnar væri grunnur og hætta stafaði þar af dýfingum. 

Héraðsdómur féllst á að merkingar í sundlauginni hafi ekki fullnægt kröfum reglugerðar um að varúðarmerkingar skuli vera greinilegar og beri Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkurborgar, sem rekur sundlaugina, ábyrgð á því. En dómurinn taldi einnig, að maðurinn hefði ekki sýnt næga varkárni þegar hann í umrætt sinn hljóp að sundlaugarbakkanum og stakk sér til sunds, án þess að ganga áður úr skugga um dýpi laugarinnar og staðhætti að öðru leyti. Það styði mat dómsins um óvarkárni mannsins, að hann hafði ekki áður komið í aðallaug sundlaugarinnar, og reyndar ekki synt í sundlaug hér á landi. Hins vegar sagðist hann fyrir dómi vera syndur, en hefði þó aðallega synt í stöðuvötnum í heimalandi sínu, Póllandi.

Taldi dómurinn því að maðurinn þyrfti sjálfur að bera þriðjung tjóns síns vegna eigin sakar. Var niðurstaða dómsins, að heildarfjárhæð bóta vegna varanlegrar örorku næmu 60 milljónum króna og þjáninga- og miskabætur næmu 10,8 milljónum.  Frá þeirri upphæð dregst 21 milljón, sem maðurinn hafði þegar fengið greiddar. Bótaupphæðin nam því tæpum 50 milljónum og 2/3 hlutar hennar nema rúmum 33 milljónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert