Íbúar mótmæltu svifryksmengun

„Við erum ánægð með hvernig til tókst. Þetta vakti tilætlaða athygli,“ segir Steinunn Þórhallsdóttir, sem situr í stjórn íbúasamtaka  fyrir Hlíðar, Holt og Norðurmýri er stóð fyrir mótmælum við Miklubraut í dag. 

Íbúar í hverfinu stöðvaðu síðdegis umferð á Miklubraut í um átta mínútur með því að strengja borða yfir Miklubrautina við gönguljósin þar sem á stoð: „Sýndu tillitssemi hér býr fólk. Betra loft minni mengun.“

Með þessum aðgerðum sínum vildu mómælendur vekja athygli á skertum lífsgæðum íbúa við Miklubraut vegna svifryks- og hávaðamengunar. „Það er í gildi reglugerð um loftgæði í Reykjavík og samkvæmt henni má loftmengun tólf sinnum fara yfir heilsuverndarmörk á árinu 2009 og sjö sinnum á árinu 2010. Í dag er hún nú þegar búin að fara akkúrat tólf sinnum yfir og nagladekkjatímabilið er rétt að byrja,“ segir Steinunn og bendir á að 60% af uppistöðunni í svifryksmengun sé uppspænt malbik út af nagladekkjum.

Spurð hvernig bílstjórar hafi brugðist við töfunum á háannatíma segir Steinunn erfitt að nema  viðbrögðin í gegnum bílgluggann. „Það var svolítið flautað á okkur og það voru nokkrir bílar sem fóru upp á gangstétt og keyrðu þannig framhjá okkur. Meira að segja einn strætisvagn. Sem betur fer var enginn vegfarandi á gangstéttinni þegar strætisvagninn keyrði framhjá okkur.“

Að sögn Steinunnar er tilefni mótmælanna samgönguþing sem haldið er á Kjarvalsstöðum milli kl. 17-19 í dag þar sem íbúar eiga að móta samgöngustefnuna.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert