Vilja auka aðstoð við útigangsfólk

Stjórn Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu telur að úrræðum til handa útigangsfólki sé ábótavant. Þetta kemur fram í ályktun frá stjórninni.

„Það er staðreynd að á krepputímum fjölgar þeim sem þurfa á aðstoð að halda vegna fíknar sinnar og/ eða heimilisleysis. Fullyrt hefur verið að sá fjöldi sem ekki eigi í nein hús að venda skipti hundruðum.

Ýmis þörf heimili, sem og gistiskýli eru rekin til að hýsa útigangsfólk yfir nóttina. Þó er áberandi hversu fáa kosti heimilislausar konur og börn hafa. Konur sem ekki eiga öruggan næturstað eru líklegri til að leiðast út í vændi en aðrar sem búa við betri kjör. Að eiga fasta búsetu er lykilatriði í því ferli að ná sér uppúr fíkn og takast á við undirliggjandi geðræn vandamál.

Það er sorglegt að börn yngri en átján ára skuli nær eingöngu geta treyst á fjölskyldu eða seinvirka barnaverndarnefnd. Fyrirbyggjandi aðgerðir og góð umönnun er nauðsynleg til að börn leiðist ekki út í fíkniefni, afbrot og vændi. Stjórn Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu skorar á borgaryfirvöld að hysja upp um sig buxurnar og átta sig á að hér er um að ræða fólk en ekki tölur á blaði. Það er allra hagur að málefninu sé sinnt af metnaði, með mannúð að leiðarljósi."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert