Ekki hagstæðari samningur

Höskuldur Þór Þórhallsson.
Höskuldur Þór Þórhallsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Hvernig geta þeir sem settir voru í samninganefnd fullyrt að samningarnir séu jafnvel hagstæðari fyrir Ísland en fyrri samningar,“ spurði Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, í umræðum um Icesave á Alþingi eftir að þær hófust á ný eftir hádegishlé.

Höskuldur Þór kvaðst í ræðu sinni ósammála þeirri túlkun Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra að tengja mætti Icesave-málið við einkavæðingu banka. 

Hann skyldi sjálfur vera fyrstur til að viðurkenna að það hafi verið margt gagnrýnivert við sölu bankanna. Þessi tenging ráðherrans við Icesave ætti hins vegar ekki rétt á sér.

Hvað þau rök að Íslendingum beri siðferðisleg skylda til að greiða fyrir Icesave snertir kvaðst Höskuldur Þór ekki geta séð að sú skylda hvíli á herðum íslenskra ungmenna og barna að borga fyrir galla reglugerðar EES-samningsins um fjármálamarkaði.

Þá vék hann að neyðarlögunum sem verið væri að reyna á í Belgíu og Þýskalandi.  

Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar, vék að samningsgerðinni í andsvari sínu þar sem hann sagði að aldrei hefði staðið til að greiðslutímabilinu lyki ófrávíkjanlega 2024.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert