Heitar umræður um leiðir í kjaramálum

Fjölmenni situr ársfund ASÍ.
Fjölmenni situr ársfund ASÍ. mbl.is/Golli

„Ætlum við að fara þá leið að þeir sem geta til sín tekið taki og aðrir megi bara sjá um sig sjálfir? Er það ekki dálítið svona 2007?“ spurði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, um afleiðingar þess ef Samtök atvinnulífsins segi samningum upp, við heitar umræður um efnahags- og kjaramál á ársfundi ASÍ í dag.

Gylfi og fleiri forystumenn innan ASÍ lögðu áherslu á mikilvægi samstöðunnar við umræðurnar. Gylfi sagði að svo gæti farið að atvinnurekendur segðu samningum upp um mánaðamótin og kjaramálin færðust þá til einstakra aðildarfélaga ASÍ. Innan verkalýðshreyfingarinnar sé ekki ágreiningur um að launahækkanir eigi að koma til um mánaðamótin. „Ef það fer svo að atvinnurekendur velja þann kostinn að segja upp kjarasamningum, þá kann það vel að fara svo að það verði tækifæri til þess að semja um talsverðar launahækkanir við fyrirtæki í útflutningi, í fiskinum, stóriðjunni og víðar. En það er líka ljóst að það verður ekki hægt að gera það í mörgum öðrum greinum,“sagði Gylfi. Þá vaknaði sú spurning um hvaða leið verkalýðshreyfingin ætlaði að standa saman.

 Miklar umræður hafa farið fram á ársfundinum eftir hádegi í dag um efnahags- og atvinnumál og óvissuna í kjaramálum. Mjög skiptar skoðanir hafa verið við umræðurnar. Ríkisstjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir aðgerðaleysi. Sumir fulltrúar hafa sagt það mikil mistök að launþegahreyfingin samþykkti að fresta launahækkunum og tók á sig kjaraskerðingu þegar menn standi nú frammi fyrir því að það sé eina atriðið sem gengið hafi eftir við gerð stöðugleikasáttmálans.

„Við erum í kapphlaupi við tímann,“ sagði Gylfi. Það verði að takast að ná fram styrkingu á gengi krónunnar um a.m.k. 25%. Þá muni hagur alls launafólks batna verulega, kaupmáttur styrkjast og gengistryggðu lánin myndu lækka. „Ef okkur tekst ekki að gera þetta, þá óttast ég að við dettum inn í gamlan farveg víxlhækkana launa og verðlags,“ sagði hann. Það þýddi að þeir sem gætu samið um launahækkanir geri það en í kjölfarið fylgi svo hinir sem þurfi að beita meiri hörku til að fá fram hækkunum og fyrirtæki sem ekki gætu staðið undir hækkunum, myndu einnig semja en velta síðan kostnaðinum út í verðlagið.

„Ef svo fer sem ég veit ekki að atvinnurekendur ákveðið að segja sig frá kjarasamningum, hvaða skoðun höfum við á því? Hvaða stefnu kjaralega séð ætlar ársfundur Alþýðusambandsins að leggja okkur í forystunni fyrir? Ætlar hver að fara fyrir sig eða ætlum við að beita samstöðunni áfram, ekki bara fyrir kjarasamninginn, sem sumir finna sig læsta inni í, heldur á grundvelli stefnumiðsins að við förum fram fyrir alla,“ sagði Gylfi.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert