Baldur lætur af störfum

Baldur Guðlaugsson
Baldur Guðlaugsson mbl.is

Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneytinu hefur ákveðið að láta af störfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu. Fram hefur komið í fjölmiðlum að sérstakur saksóknari hafi til skoðunar hlutabréfaviðskipti Baldurs á þeim tíma sem hann var ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.

Í bréfi sem Baldur hefur sent starfsfólki mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að umfjöllun sem síðustu daga hafi blossað upp í fjölmiðlum um viðskipti sem hann átti með hlutabréf í Landsbanka Íslands haustið 2008 og um athugun á þeim hafi truflandi áhrif á hans daglegu störf, auk þess sem hún sé til þess fallin að hafa neikvæð áhrif á starf og trúverðugleika ráðuneytisins.

Baldur kveðst gjarnan vilja að ráðuneytið og starfsfólk þess geti ótruflað af sínum völdum gengið til sinna krefjandi starfa. Hann hafi því haft frumkvæði að því að óska eftir að láta af störfum í ráðuneytinu og í Stjórnarráðinu um næstu mánaðamót, að því er fram kemur í tilkynningu.

Baldur seldi hlutabréf í Landsbankanum hinn 17. september 2008 en í byrjun október tók skilanefnd Landsbankann yfir. Athugun Fjármálaeftirlitsins miðaði að því að skera úr um hvort Baldur hefði búið yfir innherjaupplýsingum um stöðu Landsbankans, meðal annars í krafti stöðu sinnar sem ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.

Hann hefur ítrekað neitað því að hafa haft aðrar upplýsingar um rekstur Landsbankans á þessum tíma en voru aðgengilegar almenningi. Samkvæmt yfirlýsingu sem Baldur sendi fjölmiðlum í vikunni tilkynnti FME honum í maí síðastliðnum „að fullnægjandi skýringar og gögn hefðu komið fram því til stuðnings að ég hefði ekki búið yfir innherjaupplýsingum þegar umrædd hlutabréfaviðskipti áttu sér stað.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert