Hvítsstaðamenn mótmæla frétt

Hvítsstaðir ehf. keyptu fjórar jarðir við Langá á Mýrum.
Hvítsstaðir ehf. keyptu fjórar jarðir við Langá á Mýrum. Einar Falur Ingólfsson

Eigendur Hvítsstaða ehf. mótmæla harðlega forsíðufrétt Morgunblaðsins í gær. Þar sagði m.a. að Hvítsstaðir ehf., félag í eigu sex fyrrverandi stjórnenda Kaupþings sem keypti fjórar jarðir á Mýrum á árunum 2002 - 2005 fyrir um 400 milljónir, skuldi nú rúmlega milljarð króna.

Gunnar Steinn Pálsson almannatengill sendi í dag eftirfarandi yfirlýsingu fyrir hönd eigenda Hvítsstaða ehf.:

„Í frétt Morgunblaðsins í gær voru lánveitingar SPRON og Sparisjóðs Mýrarsýslu vegna jarðarkaupa á Mýrum gerðar að umtalsefni. Fullyrti Morgunblaðið meðal annars að allt benti til þess að hundruð milljóna króna myndu tapast úr sjóðum Nýja Kaupþings sem er núverandi umsjónaraðili lánanna.

Aðrir miðlar sem endursögðu fréttina, þar á meðal Bylgjan og Ríkisútvarpið, gerðu þann þátt fréttar Morgunblaðsins að stóru atriði í sinni umfjöllun. Eins og við mátti búast birti netmiðillinn Eyjan frásögn Morgunblaðsins óbreytta og bloggkór hennar fylgdi að venju í kjölfarið með hefðbundnu orðfæri.

Netmiðillinn Pressan varð sömuleiðis fórnarlamb óvandaðra vinnubragða Morgunblaðsins í endursögn sinni. Af þessu tilefni óskast eftirgreindu komið á framfæri:

Umrædd lán, sem tekin eru af Hvítsstöðum ehf., eru, og hafa ávallt verið, í fullum skilum. Innborgað hlutafé var ekki 600 þúsund eins og Morgunblaðið fullyrti heldur nam það í lok síðasta árs 91,6 milljónum króna. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er ekki einn af hluthöfum félagsins eins og Morgunblaðið var upplýst um við vinnslu fréttarinnar.

Ekki var tekið tillit til þeirrar ábendingar og rangfærslan var, eins og ýmsar aðrar í frétt Morgunblaðsins, tekin upp óbreytt á öðrum miðlum.

Fullyrðingar Morgunblaðsins og annarra fréttamiðla í kjölfarið um að allt bendi til þess að hundruðir milljóna muni tapast vegna lánveitinganna styðjast ekki við rök fremur en svo margt annað í þessum umhugsunarverðu „fréttum“.

Fjölmiðillinn sem hratt þeim af stað stendur nú andspænis hópuppsögnum áskrifenda sinna vegna vantrausts og andúðar á öðrum hinna nýju ritstjóra blaðsins. Aðrar fréttastofur ættu e.t.v. að hafa það í huga áður en þær endursegja óbreyttan forsíðuuppslátt hans.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert