Samgönguframkvæmdir undirbúnar

Séð yfir til Vestmannaeyja frá Landeyjahöfn.
Séð yfir til Vestmannaeyja frá Landeyjahöfn. Eyjafrettir.is

Undirbúningi vegna útboða á samgönguframkvæmdum verður haldið áfram. Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra þar að lútandi. Þar á meðal eru fyrsti áfangi í breikkun Suðurlandsvegar, samgöngumiðstöð í Reykjavík og Vaðlaheiðargöng í einkaframkvæmd.

Þær framkvæmdir sem verið er að undirbúa eru taldar upp í frétt frá samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytinu.

1. Suðurlandsvegur
Fyrsti áfangi er breikkun á 6,5 km kafla milli Lögbergsbrekku og Draugahlíðarbrekku austan við Litlu kaffistofuna í 2+2 veg. Vestari kaflinn tengist núverandi þriggja akreina vegi um Lögbergsbrekku og að austan tengist hann núverandi 2+1 vegi um Svínahraun.

Gerð útboðsgagna er langt komin en auglýsa þarf verkið á Evrópska efnahagssvæðinu. Miðað er við að verkið verði hefðbundin ríkisframkvæmd en mögulegt er að síðari áfangar verði boðnir út í einkaframkvæmd og jafnvel að framangreindur kafli falli inn í þá fjármögnun á síðari stigum.

Breikkun Suðurlandsvegar er eitt þeirra verkefna sem rætt hefur verið um að lífeyrissjóðir komi að.

2. Þjónustuhús við Landeyjahöfn
Framundan er að auglýsa útboð þriggja verkefna sem tengjast þjónustu og rekstri Landeyjahafnar. Útboð þjónustuhúss er ráðgert um næstu mánaðamót.

3. Dýpkun við Landeyjahöfn
Um mánaðamótin er einnig fyrirhugað að bjóða út dýpkun hafnar og innsiglingar.

4. Ekjubrú fyrir Vestmannaeyjaferju
Smíða þarf ekjubrú í Landeyjahöfn fyrir ferjusiglingarnar, svipaða þeirri og notuð er í Þorlákshöfn. Gert er ráð fyrir útboði hennar í desember og eftir áramót stendur til að bjóða út frágang lóðar og bílastæða.

5. Samgöngumiðstöð í Reykjavík
Viðræður við Reykjavíkurborg standa yfir um málið og um leið og þeim viðræðum lýkur og byggingarleyfi hefur fengist hjá Reykjavíkurborg verður hafist handa við að byggja samgöngumiðstöð við Reykjavíkurflugvöll.

Vonast er til að framkvæmdir geti hafist snemma á næsta ári við sjálfa bygginguna. Ráðgert er að greiða framkvæmdina með þjónustu- og leigugjöldum.

6. Stækkun flugstöðvar á Akureyri

Stækka þarf flugstöðina vegna millilandaflugs og krafna um flugvernd. Fjármögnun yrði með sama hætti og við samgöngumiðstöð í Reykjavík.

7. Vaðlaheiðargöng
Markmiðið með gerð þeirra er að stytta leiðina um Hringveginn og auka umferðaröryggi en vegurinn kæmi að miklu leyti í stað vegar um Víkurskarð. Stytting yrði um 16 km.

Unnið hefur verið að undirbúningi og frumhönnun um langt skeið af félaginu Greið leið ehf. á Norðurlandi. Vinnu við skipulagsmál er lokið og er ekki þörf á mati á umhverfisáhrifum verksins. Í forvalsgögnum verður miðað við að verkið skuli fjármagna með veggjöldum og er það meðal þeirra verkefna sem rætt er við fulltrúa lífeyrissjóða um að lána til.

Ráðuneytið segir að rétt sé að geta þess að viðræður standi ennþá yfir við fulltrúa lífeyrissjóðanna um þátttöku þeirra í ýmsum samgönguframkvæmdum.

Fjölmörgum umfangsmiklum verkefnum, sem þegar hefur verið byrjað á, verður haldið áfram á næsta ári.
 
„Í fjárlagafrumvarpi næsta árs kemur fram að fjárframlög til viðhalds og nýframkvæmda á vegakerfinu nema 0,9% af vergri landsframleiðslu sem er sama hlutfall og var árin 2002, 2005 og 2006 en árið 2007 nam það 1,1%. Árin 2003 og 2004 var hlutfallið 1,2% og hæst hefur þetta hlutfall verið 1,5% árin 2008 og á yfirstandandi ári,“ segir í frétt ráðuneytisins.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert