Engar skuldir Haga afskrifaðar

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir, að engar skuldir félagsins hafi verið afskrifaðar og  ekki standi til að afskrifa neinar skuldir á Haga.  Hagar séu þvert á móti eina fyrirtæki landsins sem hafi á s.l. 18 mánuðum greitt upp að fullu með vöxtum skráðan skuldabréfaflokk, sem var meginhluti skulda félagsins.  Hagar séu nú vel fjármagnað félag til langs tíma.

Nú sé unnið að lausn á skuldum eignarhaldsfélagsins 1998, eiganda Haga.  Þar sé meginmarkmiðið að ekki komi til neinna afskrifta skulda, m.a. með því að erlendir fjárfestar leggi fram verulega fjármuni til félagsins í formi nýs hlutafjár.  Umfjöllun eða fullyrðingar um annað séu einfaldlega rangar.
 
„Líta verður á umfangsmikla umfjöllun Morgunblaðsins undanfarnar vikur, sem einstaka í sögu blaðamennsku.  Sú umfjöllun verður ekki skilin öðruvísi en sem aðför að Högum og því starfsfólki sem þar starfar.  Megininntakið í málflutningi blaðsins er að nauðsynlegt sé að Bónus starfi í framtíðinni án Jóhannesar í Bónus.  Blaðið heldur því fram að hagsmunum félagsins sé best borgið með brotthvarfi stofnandans og frumkvöðulsins Jóhannesar í Bónus. Þessu er ég, sem forstjóri Haga með öllu ósammála og deili ég þar skoðunum með stjórnendum og starfsfólki Haga," segir Finnur í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert