Vilja afla tekna með skattlagningu séreignasparnaðar

Meðfylgjandi er frumvarp Sjálfstæðisflokksins til laga um skattlagningu séreignarsparnaðar, sem dreift var nú í upphafi þingfundar klukkan 12. Verði það að lögum, hefur það í för með sér að skattahækkunartillögur ríkisstjórnarinnar, sem kynna á í dag, verða óþarfar.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að áætlanir bendi til að sparnaður í séreign gæti verið um 309 milljarðar króna um næstu áramót og iðgjöld að frádregnum lífeyri gæti numið 28,3 milljörðum. Tekjuskattur til ríkisins sem næmi 24,1% gæfi 74,6 milljarða  í eitt skipti en 6,8 milljarða  í nýjar tekjur á árinu 2010 og svo árlega næstu ár.

Útsvarstekjur sveitarfélaganna, 13,1%, gætu numið 40,5 milljörðum króna í eitt skipti og tekjuaukinn 2010 og áfram gæti numið 3,7 milljörðum.

Fram kemur, að tekjur ríkis og sveitarfélaga kunni að skerðast í framtíðinni ef ný iðgjöld verða lægri en útgreiðslur séreignar en það væri verðið sem greitt væri fyrir það að halda atvinnulífinu lífvænlegu í gegnum þessa kreppu. Þá muni þróttmeira atvinnulíf og sterkari heimili gera gott betur en að bæta það upp.

Frumvarpið í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert