Ekki mörg dæmi um misnotkun í kjölfar kynna á netinu

Facebook nýtur gríðarlegra vinsælda hjá netverjum, en þar eins og …
Facebook nýtur gríðarlegra vinsælda hjá netverjum, en þar eins og annars staðar á netinu, er nauðsynlegt að hafa varann á. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki hafa komið mörg dæmi inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, um að ofbeldi og misnotkun verði í kjölfar þess að ókunnugt fólk hittist, eftir kynni á internetinu. Þetta segir Friðrik Smári Björgvinsson, yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins.

Hann segir það hins vegar vel þekkt að kynferðisafbrotamenn villi á sér heimildir á netinu, til þess að komast í tæri við og brjóta á öðru fólki. Slíkt er stundum kallað „grooming“ á ensku, og felst í því að afbrotamaðurinn fegrar ímynd sína fyrir þeim sem hann blekkir.

Eins og fram hefur komið í fréttum í kvöld hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtekið karlmann á þrítugsaldri, sem grunaður er um að hafa haldið 16 ára gamalli stúlku fanginni á heimili sínu yfir nótt fyrir nokkru síðan, nauðgað henni og misþyrmt. Friðrik Smári staðfestir þetta.

Maðurinn og stúlkan kynntust á samskiptavefnum Facebook og hittust í kjölfarið á því að maðurinn bauð stúlkunni heim til sín. Ekki er þó talið að hann hafi villt á sér heimildir á netinu. Maðurinn var yfirheyrður í dag en ekki verður krafist gæsluvarðhalds yfir honum. Hann er skráður vinur yfir 300 manns á Facebook og meirihluti þeirra er ungar stúlkur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert