Segja fáa ekki tala fyrir fjöldann

Frá ársfundi ASÍ. Óánægja er með hve einstaka menn innan …
Frá ársfundi ASÍ. Óánægja er með hve einstaka menn innan hreyfingarinnar eru áberandi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Örfáir einstaklingar svo sem formenn verkalýðsfélaganna á Akranesi og Húsavík auk stjórnarmanna í VR gefa sig út fyrir að vera talsmenn réttra skoðana í verkalýðshreyfingunni.

Þetta kom fram á trúnaðarmannaráðstefnu Rafiðnaðarsambands Íslands á dögunum þar sem fjallað var um fréttamat fjölmiðla og efnistök nokkurra spjallþáttastjórnenda.

Rafiðnaðarmenn segja umrædda einstaklinga taka taka lítinn þátt í umræðu og stefnumótandi starfi í heildarsamtökum launamanna, þó svo þeir séu kjörnir til þess. Einnig sé eftirtektarvert að gjarnan séu í spjallþætti fengir einstaklingar sem þekktir eru af andstöðu sinni gegn verkalýðshreyfingunni - og eru ekki félagsmenn - og þeir fengnir til þess að úthúða starfi stéttarfélaganna.

Að því er fram kom á trúnaðarmannaráðstefnunni eiga verkalýðsleiðtogarnir á Húsavík og Skaganum, þeir Vilhjálmur Birgisson og Aðalsteinn Árni Baldursson og í VR, þar sem Kristinn Örn Jóhannesson er formaður, sér fáa fylgismenn innan verkalýðshreyfingarinnar.

„Það er mikil félagsleg virkni innan RSÍ og fráleitt að halda því fram að formaður sambandsins sé einangraður frá félagsmönnum og þeir séu viljalaus verkfæri í höndum formanns síns. Rafiðnaðarmenn áskilja sér allan rétt til þess að ákvarða sjálfir um öll innri mál sambandsins og aðildarfélaga þess og velja sér forystu. Trúnaðarmenn RSÍ frábiðja sér afskipti og óábyrg yfirboð sem þessir einstaklingar viðhalda,“ segja trúnaðarmennirnir sem telja umfjöllun um verkalýðsmál hafa einkennst af upphrópunum og órökstuddum klisjum ásamt því að sjaldan fer þar fram upplýst umræða.  Þá telja þeir einstaka fjölmiðlamanna vera að rífa niður verkalýðshreyfinguna og spyrja á hverra vegum þeir starfa.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert