Ólína vill breyta þingsköpum til að hindra málþóf

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telur tilefni til þess að breyta þingskaparlögum í ljósi þess hvernig þingstörfin hafa gengið fyrir sig að undanförnu. Ólína tók til máls í umræðum um störf þingsins í morgun, og sagði þá sorglega atburðarás hafa átt sér stað síðustu daga.

„Hér hafa menn fundið gloppur í þingskapalögum sem gera þeim kleift að halda skrípaleik sínum áfram," sagði Ólína. Verið væri að hindra Alþingi í því að sinna störfum sínum.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, svaraði Ólínu og sagði að flest það sem ríkisstjórnin hefði notað sem rök fyrir því að klára þurfi Icesave-málið, hafi ekki gengið eftir. Meðal annars að ekki yrði hægt að fá lán frá Norðurlöndunum nema klára málið. „Það er búið að losa um þau lán," sagði Illugi.

Einnig hefði því verið haldið fram að ekki yrði hægt að bjarga fjárhag heimilanna nema klára málið, en stór frumvarp hefði verið afgreitt um það. Einnig væru erlendir kröfuhafar tveggja banka búnir að yfirtaka þá. Það hefði ekki átt að vera mögulegt, samkvæmt rökum ríkisstjórnarinnar.

„Það er því eðlilegt að þingmenn vandi sig í þessu máli," sagði Illugi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert