Fréttaskýring: Líkt og reykurinn leitar útsvarið upp

Útsvarið er lágt á Seltjarnarnesi, eins og nesið sjálft.
Útsvarið er lágt á Seltjarnarnesi, eins og nesið sjálft. www.mats.is

eftir Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Skömmu fyrir síðustu jól var heimild sveitarfélaga til að leggja á útsvar hækkuð úr 13,03% í 13,28%. Langflest þeirra nýttu sér lagabreytinguna til að hækka útsvarið eins og við var að búast, í ljósi þeirra upplýsinga sem lágu fyrir um fjármál sveitarfélaga. Önnur héldu aftur af sér, en nú er ljóst að mörg þeirra hafa sprungið á limminu.

Meðal þeirra sveitarfélaga sem ekki hækkuðu útsvar í fyrra en ætla að gera það nú er Mosfellsbær sem hækkar upp úr 13,03% í 13,19%. Grindavík, Vogar og Ölfus þar sem hlutfallið var 13,03% setja öll útsvarið í botn. Upptalningin er ekki tæmandi.

Meðal þeirra sem enn halda aftur af sér er Reykjavík en þar verður útsvar áfram 13,03%. Seltjarnarnes og Garðabær skera sig áfram úr á höfuðborgarsvæðinu en þar er hlutfallið annars vegar 12,10% og hins vegar 12,46%. Nokkur sveitarfélög á landsbyggðinni hafa einnig haft hlutfallið lægra en hið lögbundna hámark. Í tveimur sveitarfélögum, Ásahreppi og Skorradalshreppi, er útsvarið 11,24% sem er lágmarksútsvar.

Vilja samræmdar aðgerðir

Það fer ekki á milli mála að staða margra sveitarfélaga í landinu er slæm en hún er um leið afar misjöfn. Og þessi misjafna staða á sinn þátt í því að sveitarstjórnarmenn vilja að sveitarfélög samræmi að einhverju leyti aðgerðir sínar þegar kemur að erfiðum niðurskurði. Verði ekki gripið til samræmdra tímabundinna aðgerða verður sjálfsagt erfiðara fyrir sveitarstjórnarmenn að færa íbúum fregnir af erfiðum aðgerðum, s.s. að loka þurfi litlum skólum eða draga úr þjónustu, eigi slíkar aðgerðir sér ekki stað í næstu sveit.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að of snemmt sé að segja til um heildarstöðu sveitarfélaga þar sem ekki hafi öll birt fjárhagsáætlun. Þó sé ljóst að tekjur hafi ekki dregist eins mikið saman og óttast var. Á hinn bóginn hafi spá fjármálaráðuneytisins um styrkingu gengisins ekki gengið eftir.

900–1.400 milljónir

Mjög misjafnt er hvort önnur gjöld hækka. Nokkuð er um að sorphirðugjöld hækki, að sögn Halldórs. Hann bendir á að sorphirðugjöldin eigi að endurspegla raunkostnað sem hafi hækkað gríðarlega án þess að gjöldin hafi fylgt eftir. „Við höfum verið að nota aðra fjármuni sveitarfélaga til að greiða niður þessa þjónustu. Það er ótrúlega stutt síðan opnir öskuhaugar voru við hvert sveitarfélag, krakkar að leika sér að kveikja í og elta rottur. Þetta er ekki svona lengur,“ segir hann.

Viðræður hafa verið milli sveitarfélaga og menntamálaráðherra um að vikuleg kennsluskylda verði minnkuð, einkum í eldri bekkjum. Halldór segir að fækkun kennslustunda gæti sparað sveitarfélögum í landinu á bilinu 900-1.400 milljónir. „Sveitarfélögin kalla eftir þessu. Þau verða að fá eitthvað,“ segir Halldór.

Þörf á reglum

Um síðustu áramót voru skuldir sveitarfélaga 194 milljarðar og voru þá ótaldar lífeyrisskuldbindingar og skuldbindingar utan efnahags. Ljóst er að einstaka sveitarfélög hafa skuldsett sig of mikið, nánast til óbóta.

Á vettvangi sveitarfélaga og samgönguráðuneytisins hefur undanfarið verið rætt um stífari reglur, jafnvel að lántökum sveitarfélaga yrðu settar skorður með lögum.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, bendir á að hann og Árni M. Mathiesen þáverandi fjármálaráðherra hafi, löngu fyrir hrun, ritað undir viljayfirlýsingu um að sveitarfélög setji sér fjármálareglur. Því miður hafi ekki tekist að klára þá vinnu. „Ég tel að fjármálareglur þurfi að setja og fjármálakafla sveitastjórnarlaganna þurfi að endurskoða frá A til Ö.“ Í fjármálareglum væri t.d. áskilið að sveitarfélög yrðu að vinna með ríkinu í hagstjórn og halda aftur af sér á þenslutímum. Einnig væri hugsanlegt að settar yrðu skorður við því hversu mikið sveitarfélög mættu skuldbinda sig, með tilliti til tekna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert