Kastljós kostar 130 milljónir

Þórhallur Gunnarsson er ritstjóri Kastljósins.
Þórhallur Gunnarsson er ritstjóri Kastljósins.

Beinn kostnaður við sjónvarpsþáttinn Kastljós er 130 milljónir króna á ári, að því er kemur fram í svari menntamálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi.  

Um er að ræða upphæð án ýmiss tæknikostnaðar,  hlutdeildar í sameiginlegum kostnaði viðkomandi deildar og hlutdeildar í sameiginlegum rekstri Ríkisútvarpsins, svo sem húsnæðis, tækjabúnaðar, stoðdeilda og yfirstjórnar auk gjalda sem lenda á félaginu í heild, t.d. fjármagnskostnaður og kostnaður vegna rétthafa.

Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði um kostnað við nokkra tilgreinda dagskrárliði. Í svarinu kemur fram að kostnaðurinn er eftirfarandi:

Kastljós 130 milljónir
Silfur Egils 14 milljónir
Fréttaaukinn 21 milljón
Kiljan 24 milljónir
Tíufréttir 22 milljónir.

Í svarinu kemur fram, að heildarframleiðslukostnaður dagskrárdeildar samanstandi m.a. af samnýtingu á starfsfólki, tækjum, húsnæði og öðrum búnaði sem þurfi til framleiðslunnar. Það sé því tæknilega erfitt að sundurliða kostnað eða sundurgreina viðbótarkostnað sem verður til við framleiðslu einstakra þátta.

Fréttamenn RÚV vinni sem dæmi að framleiðslu fjölmargra frétta og fréttatengdra þátta, jafnt í útvarpi, sjónvarpi sem á vefnum, og vinni við það á vöktum alla daga ársins. Kostnaður við tíufréttir sjónvarps sé tiltölulega lítill viðbótarkostnaður. Samnýting starfsfólks gildi einnig um þá sem koma að gerð annarra innlendra þátta. Verði ákvörðun tekin um að hætta með einn þátt geti það haft í för með sér að einingaverð á öðrum þáttum hækki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert