Lokaumræða um Icesave

Þingmenn munu ræða um Icesave-næstu daga.
Þingmenn munu ræða um Icesave-næstu daga. mbl.is/Heiðar

Þriðja og síðasta umræða um Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar hófst á Alþingi  í dag. Reiknað er með því að umræðunni ljúki með atkvæðagreiðslu 30. desember.

Þingfundurinn í dag átti að hefjast klukkan 13:30 en klukkan var orðin 13:35 þegar Þuríður Backman, varaforseti Alþingis, setti fundinn og bauð þingmenn velkomna eftir jólahlé. Þuríður sagði, að þinghald milli jóla og nýárs væri óvenjulegt en til þess væri stofnað til að leiða til lykta mikið deilumál.

Áður en hin eiginlega umræða um frumvarpið hófst ræddu þingmenn um fundarstjórn forseta í ljósi þess að Þuríður sagði, að hún liti svo á að samkomulag væri um tilhögun umræðunnar og þinghald næstu daga og væntanlega yrði þingfundur fram á kvöld.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokks, vildi vita hvaða samkomulag væri um að ræða. Þuríður sagði, að um væri að ræða samkomulag sem gert hefði verið með formönnum þingflokka fyrir jól.

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, sagði að ekki hefði verið gert samkomulag um tímasetningar þingfunda og eðlilegt væri að greiða atkvæði um hvort kvöldfundur ætti að vera í kvöld. 

Eftir nokkur orðaskipti lagði Þuríður formlega til að þinghald í dag gæti staðið fram á kvöld og var sú tillaga samþykkt með 30 atkvæðum gegn 24. Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, greiddi atkvæði á móti og visaði til þess að forseti Alþingis hefði lagt áherslu á að Alþingi væri fjölskylduvænn vinnustaður. Nú væri verið að leggja til að Alþingi ynni enn einu sinni langt fram á nótt þannig að þeir þingmenn, sem eiga litil börn, geti ekki sinnt þeim. „Ég hlýt að mótmæla þessu fyrir hönd barnanna," sagði Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert