Meginefnið liggur skýrt fyrir

Þingmenn ræða saman í þingsalnum í kvöld.
Þingmenn ræða saman í þingsalnum í kvöld. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði að meginefni Icesave-málsins lægi skýrt fyrir og skjöl, sem bárust frá lögfræðistofunni Mishcon de Reya til fjárlaganefndar í kvöld, breyttu engu um það.

„Sagnfræðilega og pólitískt kann að vera forvitnilegt að velta því fyrir sér hver var samningsstaðan, hver var vígstaðan, hvað var við að eiga. En það breytir ekki samningsniðurstöðunni, sem Alþingi þarf að taka afstöðu til og hefur þaulrætt og ég sé ekki að menn bæti sig mikið í þeim efnum með því að reyna enn einu sinni að þyrla upp moldviðri," sagði Steingrímur.

Steingrímur sagði, að svokölluð ný gögn, sem komið hafi frá lögmannsstofunni í kvöld, hafi legið hjá Mishcon de Reya en ekki verið í skjalasöfnum íslenskra stjórnvalda. Þá væri líklegt, að obbinn af þeim gögnum, sem lögmannsstofan segðist geta sent til viðbótar, væru frá því í október og nóvember á síðasta ári.

Steingrímur sagði, að  Mishcon de Reya hefði unnið fyrir íslensk stjórnvöld haustið 2008 og síðan aftur í stuttan tíma í mars á þessu ári til að vinna að einum afmörkuðum þætti málsins: tillögum um  hvernig nýta mætti eignir Landsbankans í uppgjör á Icesave-reikningum.

„Það  var keypt af henni vinna og hún var ekki beinlínis ókeyps; ætli það hafi ekki kostað 90 þúsund pund (18 milljónir króna) í þeim efnum ofan í 200 milljónirnar sem álitið frá (lögfræðistofunni) Lovells kostaði," sagði Steingrímur og bætti við að eftir þetta hefði lögfræðistofan Ashurst aðallega verið íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert