Breyttu kynningunni lekið í fjölmiðla

Þingmenn skoða bréf lögfræðistofunnar Mishcon re Reya á Alþingi í …
Þingmenn skoða bréf lögfræðistofunnar Mishcon re Reya á Alþingi í vikunni. mbl.is/Ómar

Í yfirlýsingu frá bresku lögfræðiskrifstofunni Mishcon de Reya, sem send var fjárlaganefnd Alþingis í gær, kemur fram að glærukynningu, sem undirbúin hafði verið fyrir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra í lok mars, var lekið til fjölmiðla mánuði síðar.

Glærukynning þessi var mikið til umræðu á Alþingi á lokaspretti Icesave-málsins þar í vikunni vegna þess að lögfræðistofan upplýsti að úr henni hefðu verið fjarlægðar viðkvæmar upplýsingar að beiðni Svavars Gestssonar, aðalsamningamanns Íslands í Icesave-málinu.

Mishcon de Reya undirbjó glærukynningu um stöðu Íslands í Icesave-deilunni og sýndi hana Svavari og fleiri embættismönnum 26. mars en til stóð að sýna Össuri glærurnar áður en hann færi á fund Davids Milibands, utanríkisráðherra Breta í Lundúnum 31. mars.

Lögfræðistofan segir, að eftir kynninguna hafi Svavar óskað eftir því að tekinn yrði út úr henni kafli um hugsanlega málshöfðun Íslendinga á hendur breska fjármálaeftirlitinu. Það var gert og ný útgáfa var dagsett 29. mars. Mishcon de Reya fullyrðir að sú útgáfa hafi verið sýnd á morgunverðarfundi með Össuri 31. mars. Össur sagðist hins vegar á Alþingi í gær aðeins hafa staldrað stutt við á þeim fundi og aldrei séð glærukynninguna.

Í yfirlýsingu Mike Stubbs, eins af eigendum Mishcon de Reya, frá í gær segist hann hafa sent Svavari tölvupóst 7. júlí en þá hafði breyttu kynningunni frá 29. mars verið lekið í fjölmiðla. Upphaflega kynningin var hins vegar enn óbirt.

Stubbs segist skömmu síðar hafa hringt í Svavar sem hafi sagt sér, að eina eintakið af kynningunni frá 26. mars væri öruggt í peningaskáp hans. Stubbs segist hins vegar vita, að Huginn Þorsteinsson, embættismaður í fjármálaráðuneytinu og Áslaug Árnadóttir, sem var í íslensku Icesave-nefndinni, hafi einnig setið fundinn 26. mars og tekið afrit af skjölunum.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, spurði Össur á Alþingi í gær hvers vegna Stubbs tæki þetta fram í yfirlýsingu sinni. Össur sagðist enga hugmynd hafa um hvað færi fram í hugardjúpum lögmanna þessarar ágætu lögmannsstofu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert