Landsbankinn boðar aðgerðir

Viðskiptavinum Landsbankans stendur nú til boða að færa íbúðalán bæði í erlendri mynt og íslenskum krónum með einföldum hætti niður í 110% af markaðsvirði eignar. Það þýðir að skuldir eru lagaðar að virði eignar lántaka og eftirstöðvar upphaflegs láns, umfram 110% af markaðsvirði fasteignar, eru felldar niður.

Segir bankinn, að þessi leið henti þeim sem eru með hátt veðhlutfall á eign sinni og þurfi að lækka greiðslubyrði lánsins. Mögulegt sé að lækka greiðslubyrðina enn frekar með því að lengja lánstímann.

Íbúðaláni í erlendri mynt verður þó að breyta í verðtryggt eða óverðtryggt langtímalán í íslenskum krónum eigi þetta að ganga eftir. Kjör lánanna eru sambærileg þeim sem bjóðast á hefðbundnum íbúðalánum bankans á hverjum tíma, verðtryggðum eða óverðtryggðum.

Löggiltur fasteignasali metur markaðsvirði eignarinnar og skal verðmat aldrei vera lægra en fasteignamat að viðbættu lóðarmati. Verðmat greiðist af bankanum enda velur hann fasteignasalann sem metur eignina. Viðskiptavinurinn þarf að uppfylla kröfur um greiðslugetu og nýtingu veðrýmis annarra eigna að undangengu greiðslumati og Landsbankinn þarf að vera aðalviðskiptabanki viðkomandi.

Allir viðskiptavinir með íbúðalán, hvort heldur í erlendri mynt eða íslenskum krónum, geta sótt um að íbúðalán þeirra verði færð niður í 110% af markaðsvirði.

Vextir verðtryggðra íbúðalána Landsbankans eru nú 4,8%, en óverðtryggðra lána 8,5% sem er töluvert undir stýrivöxtum Seðlabanka Íslands. Þeir sem kjósa að færa erlend lán í innlend með höfðuðstólsleiðréttingu, eiga kost á 6% óverðtryggðum vöxtum í tvö ár. Eftir það bjóðast þeim viðskiptavinum bestu íbúðalánavextir bankans á hverjum tíma. Landsbankinn kynnti fyrstur banka óverðtryggð íbúðalán í apríl sl. og mun áfram bjóða viðskiptavinum að velja milli óverðtryggðra og verðtryggðra lána á samkeppnishæfum vöxtum. 

Þeir viðskiptavinir Landsbankans sem ekki hafa nýtt sér önnur úrræði en greiðslujöfnun og eru í skilum, fá endurgreidd 50% af vöxtum íbúðalána í desember. Ekki þarf að sækja um endurgreiðslu heldur verður upphæðin lögð inn á reikning viðskiptavina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert