Þverpólitísk nefnd um Icesave

Formenn flokkanna áttu fundi í Stjórnarráðinu í gærkvöldi.
Formenn flokkanna áttu fundi í Stjórnarráðinu í gærkvöldi. mbl.is/Árni Sæberg

Reiknað er með að á fundi formanna flokkanna í dag verði gengið frá skipan þverpólitískrar nefndar allra flokka sem hafi umboð til að ræða við Breta og Hollendinga um Icesave ef þjóðirnar lýsa yfir vilja til að hefja formlegar viðræður um málið að nýju.

Fundurinn hefst í forsætisráðuneytinu kl. 15:30. Ekki er reiknað með að formenn flokkanna setji fram sameiginleg samningsmarkmið í komandi viðræðum.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagði eftir ríkisstjórnarfund í morgun að stjórnvöld væru í samráði við stjórnarandstöðuna að undirbúa sig undir hugsanlegar viðræður við Breta og Hollendinga. Ekkert lægi þó fyrir um það að þjóðirnar væru tilbúnar til að hefja á ný viðræður við Íslendinga.

Steingrímur verður ekki á fundum formanna flokkanna, en hann er núna á Akureyri þar sem  flokksráðsfundur Vinstri grænna hefst síðdegis.

Embættismenn og starfsmenn sendiráða Íslands hafa síðustu daga átt í óformlegum viðræðum við Breta, Hollendinga, Norðurlöndin og fleiri þjóðir um Icesave. Ráðherrar landanna hafa einnig ræðst við. Búist er við að það skýrist um eða eftir helgi hvort formlegar viðræður hefjast á ný um Icesave.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert