Fangaklefarnir fylltust í nótt

mbl.is/Júlíus

Í nógu var að snúast fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Frá því á miðnætti þar til klukkan sjö í morgun komu 102 mál inn á borð lögreglu, sem þykir ansi mikið, og eftir nóttina er staðan þannig að allar fangageymslur eru fullar.

Tveir menn voru gripnir glóðvolgir við innbrot laust eftir miðnættið. Þeir voru handteknir á vettvangi og færðir í fangageymslur. Tilkynnt var um eina líkamsárás, í heimahúsi og tengdist hún ekki skemmtanalífinu. Hún var þó minniháttar.

Þá urðu fimm umferðaróhöpp, en í aðeins einu þeirra urðu meiðsl á fólki. Það var á gatnamótum Snorrabrautar og Laugavegar, þar sem tveir bílar rákust saman. Meiðsl fólksins voru hins vegar einungis minniháttar og gat það leitað sjálft á slysadeild. Í þremur af þessum fimm umferðaróhöppum leikur grunur á því að ekið hafi verið undir áhrifum áfengis.

Þess utan voru tíu teknir fyrir akstur undir áhrifum áfengis og þrír stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum ólöglegra fíkniefna. Einnig voru fjórir ökumenn stöðvaðir sem reyndust við nánari skoðun ekki vera með gild ökuréttindi.

Þetta er aðeins ágrip af því helsta sem lögregla þurfti að fást við í nótt, en segja má að þó nóttin hafi verið mjög erilsöm hafi ekki verið mjög mikið um alvarleg mál eða líkamstjón.

Nóttin var hins vegar mjög róleg hjá velflestum lögregluembættum á landsbyggðinni. Einn var tekinn fyrir ölvun við akstur á Selfossi og annar á Bolungarvík, en annars var lítið að frétta utan höfuðborgarsvæðisins eftir nóttina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert