Kvensamur Íslendingur rændur í Taílandi

Svo virðist sem internetið leyfi fólki ekki lengur að hverfa …
Svo virðist sem internetið leyfi fólki ekki lengur að hverfa í mannfjöldann í hinum fjarlægu deildum heimsins. AP

Sagt frá íslenskum manni á taílenskum fréttavefjum í dag, sem var byrlað svefnlyf og hann rændur af þremur konum þar í landi.

Maðurinn, sem er sagður 53 ára gamall, tilkynnti að honum hefði verið byrluð ólyfjan og hann rændur af þremur konum sem hann hefði tekið á löpp úti á götu. Er haft eftir honum að hann hafi ætlað sér að fara með þær upp á hótelherbergi til þess að eiga með þeim síðbúið næturgaman, á Walk-in Mansions hótelinu í Soi Beokeow.

Skömmu eftir að hafa komið upp á herbergi segist maðurinn hins vegar hafa orðið mjög syfjaður og svo misst meðvitund. Þegar hann vaknaði morguninn eftir sá hann að peningar voru horfnir úr veskinu hans. Hann sagði lögreglunni að hann hefði þegið vatnsglas frá konunum, þegar þau voru að búa sig undir að ,,koma sér að efninu“. Hann hefur sagt lögreglu að hann sé viss um að svefnlyf hafi verið sett í glasið hans.

2.500 bandaríkjadölum var stolið úr herberginu hans. Það jafngildir á fjórða hundrað þúsund íslenskra króna. Lögreglan í Pattaya tók niður lýsingu á konunum og hefur myndum verið dreift til lögreglumanna sem munu reyna að hafa hendur í hári þeirra áður en þær láta aftur til skarar skríða, að því er fram kemur í taílenskum fréttamiðlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert