Landsliðið fyrirmynd í sóknaráætlun

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. mbl.is/Kristinn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði í ávarpi, sem hún flutti á Selfossi, að þjóðin þyrfti að líta til landsliðsins í handbolta um fyrirmyndir í vörn og sókn í atvinnu- og efnahagsmálum á næstu árum.

„Þessir drengir eru þrautþjálfaðir og hafa tæknina á valdi sínu, enda samkeppnishæfir í bestu handboltaliðum heims. Sem lið hafa þeir leyst mörg verkefni saman, unnið glæsta sigra en einnig beðið ósigra. Þeir hafa glöggan skilning á því að rétt hugarfar, vilji til þess að sigra og raunhæft mat á stöðunni, þarf að vera fyrir hendi. Og þeir þurfa í hverjum leik að finna leiðir til þess að sigra erfiða andstæðinga.

Standi þeir vörnina vel skapast oft góð skilyrði fyrir skyndisóknir. Stundum er þó betra að fara sér hægar í sóknina og byggja hana vel upp í stað þess að skjóta á markið í bráðræði úr þröngum færum. Þeir sýna okkur betur en margt annað að sókn getur verið góð taktík sem varnarleikur. Það er aldrei nóg að pakka bara í vörn. Í stórum dráttum eru það sömu viðhorf, sami skilningur og samskonar mat sem þarf að liggja til grundvallar þegar við sem þjóð metum stöðu okkar til þess að verjast og sækja fram við erfiðar aðstæður," sagði Jóhanna.

Á fundinum á Selfossi voru samankomnir þeir sem unnið hafa að undirbúningi sóknaráætlunar 20/20 en markmiðið með þeirri sóknaráætlun er að tryggja að Ísland verið eitt af 10 samkeppnishæfustu löndum heims árið 2020.

Ávarp Jóhönnu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert