Flugvél Cargolux lenti á bíl

Boeing 747-400 fraktþota í eigu Cargolux.
Boeing 747-400 fraktþota í eigu Cargolux. mbl.is/Halldor Kolbeins

Flutningaþota af gerðinni Boeing 747-400 í eigu Cargolux, sem var að koma frá Barcelona á Spáni til Lúxemborgar í gær, lenti á þaki sendibíls sem stóð á flugbrautinni. 

Samkvæmt upplýsingum mbl.is frá Lúxemborg hafði flugvélin fengið lendingarheimild á braut 24 á flugvellinum í hádeginu í gær. Þoka var og brautarskyggni innan við 350 metrar. Eitt hjól þotunnar fór í lendingunni í gegnum þak sendibíls sem stóð á flugbrautinni. Flugvélin lenti ósködduð, ef frá eru taldar skemmdir á einum hjólbarða.

Bílstjórinn var í sendibílnum þegar þetta gerðist. Hann sakaði ekki en honum mun hafa brugðið verulega. Samkvæmt upplýsingum frá samgönguráðuneyti Lúxemborgar var bíllinn á flugbrautinni vegna viðhalds á ljósabúnaði flugvallarins.  Ekki kom fram hvort flugumferðarstjórn hefði heimilað veru hennar á brautinni.

Rannsókn er hafin á ástæðum atviksins. Margir íslenskir flugmenn starfa hjá Cargolux en ekki er vitað hvort Íslendingar voru í umræddri flugvél.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert