Segir sig úr þingmannanefnd

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Ómar

Ásbjörn Óttarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur sagt sig úr 9 manna þingmannanefnd, sem kosin var á Alþingi til að fjalla um væntanlega skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Ásbjörn viðurkenndi í vikunni í Kastljósi, að hafa greitt sér út ólöglegan arð úr útgerðarfyrirtæki sínu Nesveri fyrir árið 2006.

Fram kom í Kastljósinu, að Ásbjörn hefði endurgreitt arðinn, 20 milljónir króna, fyrir skömmu eftir að fréttamenn spurðu hann um málið. Sagðist hann ekki hafa vitað fyrr en þá, að arðgreiðslan hefði verið ólögleg þar sem eiginfjárstaða fyrirtækisins var neikvæð á þessum tíma.

Yfirlýsing Ásbjörns er eftirfarandi:

Undir lok síðasta árs tók ég sæti í níu manna þingmannanefnd sem fjalla á um skýrslu nefndar sem vinnur nú að rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Tilgangur nefndarinnar er að vinna úr þeim upplýsingum sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndarinnar, þannig að læra megi af þeim mistökum sem gerð voru í aðdraganda falls bankanna. Það er von mín að þar verði stigið mikilvægt skref til uppbyggingar og endurreisnar trausts í íslensku viðskiptalífi, sem og samfélaginu öllu.

Að undanförnu hafa mál er mér tengjast verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Ég hef gert skilmerkilega grein fyrir því hvernig þeim málum var háttað og gert allt sem í mínu valdi stendur til að leiðrétta þau mistök sem gerð voru. Ég hef nú ákveðið að segja mig frá störfum í nefndinni, til að tryggja að friður ríki um störf hennar. Þau mál sem hún mun hafa til umfjöllunar eru þess eðlis að ekkert má verða til að draga athyglina frá þeirri mikilvægu vinnu sem nefndinni er ætlað að inna af hendi, þar með talin persónuleg mál einstakra nefndarmanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert