Fréttaskýring: Fiskurinn dreginn landshorna á milli

mbl.is/ÞÖK

Fjárhagsstaða marga hafna á landinu er erfið um þessar mundir, reksturinn þungur og skuldabagginn stór. Nefnd sem fjallar um þessa stöðu hefur verið að störfum undanfarið og skilar af sér til ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála á næstunni. Hafnirnar eru í eigu og á ábyrgð sveitarfélaga og munu einhver þeirra þurfa að taka sérstaklega á þessum vanda.

„Í raun eru sárafáar hafnir á landinu með viðunandi rekstur,“ segir Gísli Gíslason, formaður Hafnasambands Íslands og hafnarstjóri Faxaflóahafna. Hann segir að hafnir með blandaðan rekstur og tekjur af bæði vörugjöldum og aflagjöldum standi ágætlega. Hann nefnir sem dæmi Fjarðabyggð, Hafnarfjörð, Reykjavík, Akureyri og Vestmannaeyjar. Vandi hreinna fiskihafna hafi hins vegar lengi verið viðvarandi og Hafnasambandið hafi kallað eftir lausnum til framtíðar.

„Í mörgum tilvikum er aflanum landað á þeim stöðum sem liggja best við miðunum og síðan fer mikil hringekja í gang. Fiskurinn er dreginn landshorna á milli og ótrúlegt magn af fiski er á þjóðvegunum á hverjum degi,“ segir Gísli.

Langmestu landað í Reykjavík

„Reykjavík hefur bætt miklu við sig, en á móti hefur verulega dregið úr löndunum á Akranesi. Það vegur þungt í þessu sambandi að HB-togararnir landa núna í Reykjavík, en aflanum er síðan keyrt upp eftir. Samdráttur í löndun segir ekki allt um vinnsluna og Skaginn hefur heldur sótt í sig veðrið aftur eftir samdrátt árið 2008.“

Mestum botnfiski var í fyrra landað í Reykjavík, 94.525 tonn. Grindavík kemur næst í magni en er þó tæplega hálfdrættingur með 36.276 tonn. Árlega síðustu a.m.k sautján ár hefur mestum botnfiskafla verið landað í Reykjavíkurhöfn.

Rif og Arnarstapi eru dæmi um hafnir sem verulega hafa aukið hlutdeild sína í lönduðum afla samkvæmt samantekt Fiskistofu um landaðan bolfisk eftir höfnum frá 1993 til 2009. Landað magn af botnfiski á Djúpavogi jókst úr 3.527 tonnum 1993 upp í 8.542 tonn á síðasta ári. Á Sauðárkróki er aukning úr 2.450 tonnum 1993 upp í 11.768 tonn í fyrra. Á Hofsósi var einnig meiru landað á sama tímabili eða 1.135 tonnum í stað 337 tonna áður.

Samdráttur á tímabilinu nam yfir 90% á nokkrum stöðum auk þess sem löndun hefur lagst af á öðrum. Meðal staða sem hafa þolað mikinn samdrátt er Akranes en þar er samdrátturinn tæpt 91% sé litið til breytinga á lönduðu magni á árinu 1993 og 2009. Landaður botnfiskafli þar nam 20.833 tonnum árið 1993 en var einungis 1.914 tonn á nýliðnu ári.

Á Akureyri var landað 13.200 tonnum í fyrra, en 41 þúsund tonnum 1993. Fram kom hjá sjávarútvegsráðherra á Alþingi í desember að Akureyri er það sveitarfélag sem tapað hefur mestum kvóta á síðustu 10 árum, en Reykjavík bætt mestu við sig. Hlutdeild Akureyrar er nú 4,8% miðað við heimahöfn veiðiskipa, en var 10,2% fyrir áratug. Reykjavík er nú með 13,9% af úthlutuðum heildarkvóta þorskígilda, en var með 8,8% fyrir 10 árum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert