Reksturinn ríkinu ofviða

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. mbl.is/Helgi Bjarnason

Stjórn Starfsmannafélags Suðurnesja telur að flest bendi til þess að rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja sé ríkinu ofviða og að hringlandaháttur stjórnvalda dragi máttinn úr harðduglegu starfsfólki HSS. Telur stjórnin að tími sé kominn til að eineldi stjórnvalda í garð Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja linni. Hátt í 50 félagsmenn STFS starfa á HSS.

„Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er dæmi um stofnun sem skipar veigamikið hlutverk í þjónustu við íbúa sína.  Stofnunin er samfélaginu mikilvæg og hafa starfsmenn sem þar starfa unnið af heilindum og á stofnuninni hefur skapast einstakt andrúmsloft svo eftir er tekið.

Í áratugi hafa stjórnendur HSS árangurslaust reynt að benda stjórnvöldum á að ekki er rétt gefið þegar rætt er um fjármagn frá ráðuneytinu til reksturs stofnunarinnar. Þá hefur frá árinu 2005 orðið mikil fjölgun íbúa á svæðinu en þrátt fyrir það hafa framlög til HSS ekki verið aukin í samræmi við það.

Nú stendur fyrir dyrum að loka eigi skurðstofum 1. maí, sem gerir það að verkum að fæðingarþjónusta og öryggi þeirra sem hennar eigi að njóta verði verulega skert.

Þá hefur  einnig heyrst að ráðuneytið hyggist afla sér fjár með því að selja hluta af tækjum stofnunarinnar, þeirra á meðal tæki sem fyrirtæki og félagasamtök hafa gefið HSS með góðum hug.

Þetta sýnir að rekstur HSS og jafnvel fleiri heilbrigðisstofnanna er ríkisvaldinu gjörsamlega ofviða. Á síðustu sex árum hafa ákvarðanir heilbrigðisráðherra varðandi skurðstofuþjónustu á HSS breyst fimm  sinnum.

2004 ákvað þáverandi ráðherra að byggja upp tvær nýjar skurðstofur við HSS. Næsti ráðherra dró úr fjármagni til byggingar og reksturs þeirra. Þriðji vildi veita stofnuninni  svigrúm til að skapa sértekjur með útleigu á skurðstofunum sem sá fjórði bannaði með öllu og hagræðingarkröfur núverandi ráðherra verða þess valdandi  að leggja þarf  starfsemina alfarið niður.

Er nema von að slíkur hringlandaháttur stjórnvalda dragi máttinn úr harðduglegu starfsfólki HSS. Er ekki kominn tími til að eineltinu linni?“ segir í ályktun stjórnar Starfsmannafélags Suðurnesja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert