Lögreglumaður sýknaður

Lögreglumaður var í dag sýknaður af ákæru fyrir líkamsárás og brot í opinberu starfi með því að hafa beitt ekki beitt réttum aðferðum við handtöku.

Lögreglumaðurinn stýrði hóp þriggja lögreglumanna og nema lögregluskólans sem var í starfsnámi. Þeir svöruðu tilkynningu frá skemmtistað í miðborginni en grunur lék á að maður vopnaður hnífi væri þar innandyra. 

Fyrir utan hittu þeir fyrir ungan og kjaftforan mann, fórnarlambið í málinu. Eftir nokkuð þóf var maðurinn handtekinn og honum ekið út á Granda þar sem hann var skilinn eftir. Var lögreglumaðurinn ákærður fyrir að hafa á leiðinni út á Granda þrýst hné sínu á háls unga mannsins, þar sem hann lá handjárnaður, með þeim afleiðingum að maðurinn hlaut marbletti aftan á hálsinum.

Ungi maðurinn var ekki beðinn um nafn né var neitt skráð um atvikið í bókum lögreglunnar.

Í dómnum segir, að lögreglumennirnir, sem kallaðir voru að skemmtistaðnum, hafi verið þar í brýnum erindum. Vitni séu á einu máli um að ungi maðurinn hafi þvælst ölóður fyrir lögreglumönnunum þar fyrir utan og hindrað störf þeirra. 

Fram sé komið í málinu, að um helgar þurfi lögreglan oft að neyta þess úrræðis að flytja vandræðamenn úr miðbænum í Reykjavík og sleppa þeim á öðrum stað eftir stuttan akstur til þess að afstýra frekari vandræðum.  Hljóti það óhjákvæmilega að hafa það í för með sér að viðkomandi sé sviptur frelsi sínu um stund, m.ö.o. handtekinn. Segist dómurinn álíta slíkar aðgerðir rúmast innan þeirra heimilda sem lögregla hafi.

Þá segir í niðurstöðu dómsins, að í þrengslunum í lögreglubílnum hafi lögreglumaðurinn hafi átt fullt í fangi með  að hemja óðan mann, sem braust um og sparkaði frá sér. Þá hafi lögreglumaðurinn þurft að  halda sér vegna ferðarinnar á bílnum. Einnig hafi tak lögreglumannsins á unga manninum ekki haft í för með sér hættulegan áverka og loks sé ekki útilokað, að ungi maðurinn hafi að einhverju leyti valdið áverkanum sjálfur með umbrotum sínum.

Því sé ósannað að lögreglumaðurinn hafi beitt hnénu af svo miklu afli að hann teljist, við þessar kringumstæður, ekki hafa gætt lögmætrar aðferðar við það að halda unga manninum.  

Lögreglumaður neitar harðræði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert