Dregur úr sölu áfengis

Sala áfengis minnkaði um 15% í janúar miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi. Að sögn Rannsóknarseturs verslunarinnar var verð á áfengi  17,8% hærra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði í fyrra.

Rannsóknarsetrið, sem reiknar mánaðarlega út smásöluvísitölu, segir að  áfengisgjald hafi hækkað um 10% um áramótin og virðisaukaskattur á áfengi um eitt prósentustig. Þessi gjöld hafi vafalítið haft áhrif á sölu áfengis í janúar. Langt sé síðan svo lítil áfengissala hefur verið í einum mánuði og þurfi að leita allt aftur til janúar 2006 til að finna álíka raunveltu í sölu áfengis, en það ár var einum laugardegi færra í janúar en á þessu ári.

Alls dróst velta í dagvöruverslun saman um 3,9% á föstu verðlagi í janúar miðað við sama mánuð í fyrra. Verð á dagvöru hækkaði um 6,8% á þessu 12 mánaða tímabili.  Velta dagvöruverslunar hefur ekki verið jafnlítil frá því í febrúar 2009.

Fataverslun var 8,5% minni í janúar miðað við sama mánuð árið áður á föstu verðlagi. Verð á fötum var 15,2% hærra í janúar síðastliðnum en í sama mánuði ári fyrr.  Velta skóverslunar dróst saman um 14,4% í janúar á föstu verðlagi  en verð á skóm hækkaði í janúar um 21,6% frá janúar í fyrra.
 
Velta húsgagnaverslana var 34,9% minni í janúar en í sama mánuði í fyrra á föstu verðlagi. Verð á húsgögnum var 8,5% hærra í janúar síðastliðnum miðaða við sama mánuð í fyrra.
 
Sala á raftækjum í janúar minnkaði um 5,5% á föstu verðlagi frá sama mánuði í fyrra. Verð á raftækjum hækkaði um 10,6% frá janúar 2009. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert