Framkvæmdir við einkasjúkrahús

Iceland Helthcare mun nýta gamla hersjúkrahúsið á Keflavíkurflugvelli og íbúðir …
Iceland Helthcare mun nýta gamla hersjúkrahúsið á Keflavíkurflugvelli og íbúðir frá Bandaríkjaher. mbl.is / Ómar

Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar (Kadeco) hefur ákveðið að ráðast í endurbætur á hersjúkrahúsinu á Ásbrú í Reykjanesbæ. Þar mun fyrirtækið Iceland Healthcare bjóða upp á sérhæðar meðferðir fyrir útlendinga. Fyrstu sjúklingarnir eru væntanlegir í byrjun næsta árs.

Búist er við að 300 ný störf skapist í tengslum við starfsemina.

Iceland Healthcare hefur á undanförnum mánuðum undirbúið stofnun og rekstur sjúkrahúss á Ásbrú og hefur nú lokið fjármögnun rekstrar. Fyrirtækið mun taka sjúkrahúsið og fjölda íbúða í nágrenni þess á leigu hjá dótturfélagi Kadeco.

Kadeco áformar að hefja framkvæmdir við endurbætur á sjúkrahúsinu síðar í vetur. Alls verða þrjár skurðstofur og 35 legurými í húsinu. Unnið verður að uppbyggingunni í áföngum en heildarkostnaður við sjúkrahús og íbúðir er áætlaður um milljarður kr. í heildina, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins.

Unnt verður að taka á móti allt að fjögur þúsund sjúklingum á ári en í fyrstu er þó stefnt að því að fjöldi sjúklinga verði um tvö þúsund. Árlegar tekjur af starfseminni geta numið allt að 3,5 milljörðum króna á ári, samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins.

Iceland Helthcare mun í fyrstu sérhæfa sig í liðskiptaaðgerðum, offituaðgerðum og meðferðum því tengdu.

Í fyrstu mun fyrirtækið leggja áherslu á markaðssetningu í Noregi og Svíþjóð en fljótlega einnig í Englandi. Áform eru uppi um að bjóða Bandaríkjamönnum upp á þjónustu í framtíðinni.

Rekstrarfélag sjúkrahússins er í eigu félaga sem Róbert Wessman og norski læknirinn Otto Nordhus eiga meirihlutann í.

Iceland healthcare mun verða með starfsemi á Ásbrú.
Iceland healthcare mun verða með starfsemi á Ásbrú. mbl.is / Rax
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert