London, París... Reykjavík

Mælt er með að ferðamenn njóti útsýnisins úr Hallgrímskirkjuturni.
Mælt er með að ferðamenn njóti útsýnisins úr Hallgrímskirkjuturni. mbl.is/Ómar

Reykjavík er meðal þeirra tíu borga sem mælt er með í marshefti tímarits Lonely Planet ferðabókaútgáfunnar. En tímaritinu fylgir þennan mánuðinn bæklingur sem ber heitið 10 Unforgettable City Breaks – eða 10 ógleymanlegar borgarferðir.

Þar eru taldar upp heimsborgirnar hver á fætur annarri: París, New York, Barcelona, Róm og Berlín. En líka Kraká, Lissabon Marrakesh, Kaupmannahöfn og svo Reykjavík.

Af hverju að fara núna til Reykjavíkur er spurt? Og því svarað:

„Nyrsta höfuðborg heims, Reykjavík, er ein smartasta borg jarðar. Böðuð í tærri norðurheimskautsbirtunni er borgin gáttin að áhrifamiklu landslagi Íslands. En það sem færri vita er að það er hægt að falla algjörlega fyrir borginni sjálfri. Litríkar byggingar og skemmtilega sérkennilegt fólk er hluti af sjarma hennar en ekki síður hin hrífandi samsetning af saklausu þorpi og kraftmikilli stórborg.“

Mælt er með að ferðamenn njóti útsýnis úr Hallgrímskirkjuturni, fari í sund – hvort sem er í einni af sundlaugum bæjarins, á ströndinni í Nauthólsvík eða skjótist í Bláa lónið. Fari í hvalaskoðun og rölti um Skólavörðustíginn og líti inn í öll skemmtilegu galleríin þar.

Hina íslensku sál má hinsvegar finna, að mati Lonely Planet, í Sögusafninu í Perlunni, Víkinni – sjóminjasafni, Þjóðminjasafninu og Listasafni Íslands, en það sé þó ekkert á móts við það að vera „á rúntinum” á föstudags- eða laugardagskvöldi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert