Óheimilt að mismuna borgarbúum

Marta Guðjónsdóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkur.
Marta Guðjónsdóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkur.

Mannréttindaráð Reykjarvíkurborgar segir að það brjóti í bága við mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar að fólki sé mismunað við matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálp Íslands. Málið sé litið alvarlegum augum.

Marta Guðjónsdóttir, formaður mannréttindaráðs Reykjavíkur, segir mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar vera skýra. „Það er óheimilt að mismuna borgarbúum vegna uppruna þeirra, litarháttar, þjóðernis og menningarlegs bakgrunns. Eða vegna hvers kyns flokkunar, sem er byggð á kynþáttahyggju. Þetta brýtur alveg í bága við þetta ákvæði mannréttindastefnunnar,“ segir Marta.

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að Fjölskylduhjálp fari fram á vottorð frá Félagsþjónustu Reykjavíkur vilji útlendingar, sem komi oftar en einu sinni í mánuði, fá matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálpinni. 

Mannréttindaráðið líti það mjög alvarlegum augum þegar góðgerðarfélög, sem borgin styrki með fjárframlögum, brjóti í bága við mannréttindastefnuna.

„Aðalatriðið er að það séu skýrar reglur sem tryggi það að þeir einir njóti aðstoðar sem á henni þurfa að halda og að allir sitji við sama borð, hvað úthlutun varðar,“ segir Marta í samtali við mbl.is. 

Ráðið mun fjalla um málið á fundi sínum nú klukkan 11. Að sögn Mörtu hefur ráðið ekki enn sett sig í samband við forsvarsmenn Fjölskylduhjálparinnar, en það verði gert í framhaldinu. Von er ályktun frá ráðinu fyrir hádegi.

Röð fyrir utan Fjölskylduhjálp Íslands. Myndin er úr safni.
Röð fyrir utan Fjölskylduhjálp Íslands. Myndin er úr safni. mbl.is/Sverrir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert