Páfi hitti norræna biskupa

Páfi með Pétri Bürcher Reykjavíkurbiskupi.
Páfi með Pétri Bürcher Reykjavíkurbiskupi.

„Ég hvet ykkur til að halda áfram að flytja þjóðum landa ykkar kenningar kirkjunnar um félagsleg og siðferðisleg málefni,“ sagði Benedikt páfi XVI í síðustu viku á fundi með öllum kaþólskum biskupum á Norðurlöndunum. 

Benedikt páfi hitti alla kaþólska biskupa á Norðurlöndum að máli í Róm í síðustu viku. Fundur Biskuparáðstefnu Norðurlanda var haldinn þar dagana 20.–27. mars.

Benedikt páfi lét í ljós djúpa umhyggju fyrir hinum trúuðu í þessum heimshluta og hvatti biskupana til að vera góða og hugrakka hirða á þessum erfiðleikatímum, að því er segir í fréttatilkynningu frá Kaþólsku kirkjunni.

„Í einkaviðræðum sínum við Benedikt páfa gafst biskupunum kostur á að koma skoðunum sínum og athugasemdum á framfæri og reyndist páfi bæði athugull og skilningsríkur áheyrandi.

Hann minntist sérstaklega á gæði mótunar og menntunar presta í ávarpi sínu til Biskupráðstefnunnar. Formaður Biskuparáðstefnunnar, Anders Arborelius OCD (frá Stokkhólmi), ávarpaði Benedikt páfa og kynnti fyrir honum þjónustu kirkjunnar við hina fjölmörgu innflytjendur á Norðurlöndum og taldi hana „fagra og ljúfa skyldu“.

Hann minntist sérstaklega samkirkjulegra viðræðna og samræðna við þá sem játa önnur trúarbrögð en kristni og sagði þær mikilvægan hluta af starfi kirkjunnar (www.nordicbishopsconference.org).“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert