Halli lífeyrissjóðanna 708 milljarðar

Heildareignir lífeyrissjóðanna, bæði uppsafnaðar eignir þeirra og framtíðariðgjöld, voru 2457 milljarðar í árslok 2008. Skuldbindingar þeirra voru hins vegar 708 milljörðum kr. hærri. Þetta er nýtt mat lífeyrisdeildar ASÍ á ársreikningum allra lífeyrissjóða landsins.   

Greint er frá þessari úttekt í nýútkomnu fréttabréfi ASÍ. þar segir að þegar heildarstaða lífeyrissjóðanna er skoðuð, þ.e. bæði verðmæti áunninna réttinda og framtíðarréttinda þeirra sjóðfélaga sem nú eru virkir, voru heildareignir lífeyrissjóðanna 2.457 miljarðar króna í árslok 2008. Á sama tíma voru heildarskuldbindingar lífeyrissjóðanna 3.165 miljarða króna.

Skuldbindingar lífeyriskerfisins í heild voru því 708,5 milljörðum kr. meiri en sem nam uppsöfnuðum eignum og framtíðariðgjöldum sjóðafélaganna, eða 22,4%.

„Af þessum ríflega 700 milljörðum var halli lífeyrissjóða launafólks á almennum vinnumarkaði um 200 milljarðar króna, en til að rétta stöðuna af urðu stjórnir flestra þessara sjóða að bregðast við með því að lækka réttindi lífeyrisþega sinna strax á vormánuðum 2009, enda ekki um neina bakábyrgð launagreiðenda að ræða líkt og hjá lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna,“ segir í úttekt ASÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert