Ægir í verkefni við Senegal

Varðskipið Ægir verður í verkefnum fyrir ESB í sumar og …
Varðskipið Ægir verður í verkefnum fyrir ESB í sumar og fram á haust. Árni Sæberg

Varðskipið Ægir verður í verkefnum fyrir Evrópusambandið í sumar og fram á haust við strendur Senegal og í Miðjarðarhafinu. Skipið hefur verið í slipp að undanförnu er verið er að gera það klárt í ferðina.

Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir að unnið hafi verið að því að mála skipið og setja ýmsan búnað um borð sem er nauðsynlegur við fyrirhugað eftirlit varðskipsins í Suður Evrópu og við strendur Senegal.

Meginhlutverk skipsins verður að gæta ytri landamæra Schengen-svæðisins frá maí fram í október en Ísland er aðili að Frontex, landamæraeftirlits Evrópusambandsins, í gegnum Schengen-samstarfið.

Ægir leggur af stað í kringum 20. apríl til Senegal, en fer síðan um mitt sumar í Miðjarðarhafið og veriður við eftirlit við Spán og síðan við Grikkland. Hrafnhildur sagði að 14 starfsmenn Landhelgisgæslunnar yrðu í áhöfn Ægis. Hún sagði að þetta verkefni skapaði Landhelgisgæslunni dýrmæta reynslu. Það væri auk þess jákvætt að í stað þess að hafa annað varðskipið bundið við bryggju væri hægt að finna verkefni fyrir starfsmenn Gæslunnar. Allur kostnaður við verkefnið er greiddur af ESB.

Ægir mun fylgjast með umferð á hafi úti og skila upplýsingum til stjórnstöðvar sem staðsett verður í landi. Á meðal búnaðar sem settur verður um borð í Ægi er m.a. kæling á aðalvélar og ljósavélar, annóðukerfi í sjókistur, loftkæling í íbúðir, nætursjónaukabúnaður og fleira.

Einnig er stefnt að því að flugvél Landhelgisgæslunnar, TF SIF, verði leigð út í sumar, ásamt áhöfnum til verkefna fyrir Frontex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert